Erlendir fjárfestar eru ekki jafn æstir í bandarísk ríkisskuldabréf og áður samkvæmt greiningu The Wall Street Journal.
Framboðið á slíkum bréfum hefur hins vegar aldrei verið meira og því munu þetta vera slæmar fréttir fyrir Joe Biden forseta Bandaríkjanna.
Bandaríska ríkið hefur gefið út skuldabréf fyrir tvö þúsund milljarða dala á árinu sem er met ef undanskilið er árið 2020 og taumleysið í lántöku ríkisins í kringum faraldurinn.
Árið 2013 áttu erlendir fjárfestar og seðlabankar 43% af öllum ríkisskuldabréfum Bandaríkjanna en í ár er hlutfallið um 30%.
„Skuldabréfaútgáfan hefur rokið upp en eftirspurn erlendra fjárfesta hefur ekki aukist,“ segir Brad Setser, sérfræðingur hjá hugveitu um utanríkisviðskipti, í samtali við WSJ.
„Þetta er sérstaklega sýnilegt hjá Japan og Kína sem virðast ekki vera að bæta við sig bréfum,“ bætir hann við.
Fyrr í þessum mánuði fór ávöxtunarkrafa á 30 ára skuldabréfi ríkisins yfir 4,8% í kjölfarið af mun minni eftirspurn frá fjárfestum í 24 milljarða dala skuldabréf en búist var við.
Viðvörunarbjöllur hringdu en óttast var um getu markaðarins til að taka endalaust á móti skuldum ríkisins sem eru orðnar stjarnfræðilega háar.
Hópur forstjóra á Wall Street sem sitja í ráðgjafaráði fyrir fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna sendu frá sér viðvörun í kjölfarið um dvínandi áhuga á bréfunum sökum mikils framboðs.
Sögðu þeir eftirspurn banka og erlendra fjárfesta í bréfin vera mesta áhyggjuefnið um þessar mundir.