Er­lendir fjár­festar eru ekki jafn æstir í banda­rísk ríkis­skulda­bréf og áður sam­kvæmt greiningu The Wall Street Journal.

Fram­boðið á slíkum bréfum hefur hins vegar aldrei verið meira og því munu þetta vera slæmar fréttir fyrir Joe Biden for­seta Banda­ríkjanna.

Banda­ríska ríkið hefur gefið út skulda­bréf fyrir tvö þúsund milljarða dala á árinu sem er met ef undan­skilið er árið 2020 og taum­leysið í lán­töku ríkisins í kringum far­aldurinn.

Árið 2013 áttu er­lendir fjár­festar og seðla­bankar 43% af öllum ríkis­skulda­bréfum Banda­ríkjanna en í ár er hlut­fallið um 30%.

„Skulda­bréfa­út­gáfan hefur rokið upp en eftir­spurn er­lendra fjár­festa hefur ekki aukist,“ segir Brad Set­ser, sér­fræðingur hjá hug­veitu um utan­ríkis­við­skipti, í sam­tali við WSJ.

„Þetta er sér­stak­lega sýni­legt hjá Japan og Kína sem virðast ekki vera að bæta við sig bréfum,“ bætir hann við.

Fyrr í þessum mánuði fór á­vöxtunar­krafa á 30 ára skulda­bréfi ríkisins yfir 4,8% í kjöl­farið af mun minni eftir­spurn frá fjár­festum í 24 milljarða dala skulda­bréf en búist var við.

Viðvörunarbjöllur hringdu en óttast var um getu markaðarins til að taka endalaust á móti skuldum ríkisins sem eru orðnar stjarnfræðilega háar.

Hópur for­stjóra á Wall Street sem sitja í ráð­gjafa­ráði fyrir fjár­mála­ráðu­neyti Banda­ríkjanna sendu frá sér við­vörun í kjöl­farið um dvínandi á­huga á bréfunum sökum mikils fram­boðs.

Sögðu þeir eftirspurn banka og er­lendra fjár­festa í bréfin vera mesta á­hyggju­efnið um þessar mundir.