Ársfundur Samáls var haldinn nú á dögunum í Hörpu. Yfirskrift fundarins var „Hring eftir hring eftir hring: Áskoranir og lausnir í sjálfbærni, nýsköpun og loftslagsmálum“.

Rannveig Rist, forstjóri ISAL, segir næstu verkefni álveranna hérlendis snúast að miklu leyti um að vinna að markmiðum um enn minni losun koltvísýrings.

„Það er í raun tvíþætt verkefni. Annars vegar að minnka losun sem fellur undir skuldbindingar Íslands um 40% fyrir árið 2030 og hins vegar að vinna að minnkandi losun frá þeim hluta starfseminnar sem fellur undir ETS-kerfið, viðskiptakerfi ESB. Það er krefjandi verkefni sem kallar á tækniþróun og miklar fjárfestingar en núverandi losun okkar er nú þegar með því minnsta sem þekkist í áliðnaði. Hvorutveggja er mikilvægt skref í átt að kolefnishlutleysi.“

Rannveig bætir við að álið muni gegna lykilhlutverki á komandi árum, t.d. við að koma á orkuskiptum.

„Þróunin á álmörkuðum í Evrópu síðastliðin tvö ár sýnir líka hversu mikilvægt það er að innan álfunnar sé framleitt ál en það er nauðsynlegt inn í margvíslega framleiðsluferla í evrópskum iðnaði. Þarna skiptir framlag áliðnaðar á Íslandi miklu máli en okkar framleiðsla er mikilvægur efniviður í afurðir sem rík þörf er fyrir út frá loftslagssjónarmiðum.

Kolefnishlutlaust ál

Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls, segir að félagið stefni á að verða fyrsta álverið í heiminum sem framleiðir kolefnishlutlaust ál.

„Norðurál tekur þátt í ýmsum verkefnum sem miða að því að gera álframleiðsluna að fullu kolefnishlutlausa. Meðal verkefna sem eru á Íslandi má nefna samstarf Norðuráls og norska fyrirtækisins Ocean Geoloop sem vinna að því að þróa lausn um að fanga koltvísýring sem losnar við framleiðsluna. Þá hefur Norðurál til að mynda aðstoðað Arctus Metal sem vinnur að því að þróa kolefnislaus rafskaut.“

Nánar er fjallað um álverin í Viðskiptablaðinu sem kom út föstudaginn 26. maí.