Verðbólga á evrusvæðinu mældist 9,1% í ágúst, samkvæmt gögnum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Verðbólgan hefur aldrei verið meiri og stefnir nú í tveggja stafa tölu. Þetta kemur fram í grein hjá Guardian.

Verðbólgan jókst meira en hagfræðingar áttu von á, sem spáðu 9% verðbólgu í mánuðinum. Sérfræðingar telja að hún verði 10% í haust og muni mælast meira en 4% að meðaltali á næsta ári, sem er talsvert yfir 2% verðbólgumarkmiði.

Gas- og orkuverð drífa verðbólguna áfram á evrusvæðinu, en orkuverð hækkaði um 38,3% milli ára. Verð á mat, áfengi og tóbaki hækkaði um 10,6%, verð á iðnaðarvörum um 5% og þjónusta um 3,8% á milli ára.

Sjá einnig: Verðbólga í Evrópu verði 10% í haust

Talið er að Evrópski seðlabankinn muni taka stærri skref í vaxtahækkunum á næstu misserum.

Bankinn hækkaði stýrivexti um 50 punkta upp í 0,5% í júlí. Sérfræðingar telja að vextirnir verði hækkaðir um 75 punkta upp í 1,25% á næsta vaxtaákvörðunarfundi bankans í september.