Norski olíusjóðurinn hefur gagnrýnt „fyrirtækjagræðgi“ (e. corporate greed) og himinhá laun fyrir „miðlungs frammistöðu“. Sjóðurinn hyggst beita sér fyrir breytingum í þeim verstu tilvikunum, m.a. þar sem laun og kaupaukakerfi eru illa skilgreind eða ekki nægilega vel tengd lengri tíma markmiðum. Þetta segir Nicolai Tangen, forstjóri olíusjóðsins, í viðtali við Financial Times .

„Við erum í verðbólguumhverfi þar sem mörg fyrirtæki með nokkuð miðlungs frammistöðu eru að reiða fram verulega stóra launapakka. Við erum að sjá fyrirtækjagræðgi ná hæðum sem við höfum aldrei séð áður og það er að verða mjög kostnaðarsamt fyrir hluthafa hvað varðar útþynningu,“ er haft eftir Tangen.

Sjá einnig: Norski olíusjóðurinn á móti launum Cook

Norski olíusjóðurinn, sem er með um 11.780 milljarða norskra króna í stýringu, kaus gegn starfskjarastefnu á aðalfundi Intel í vikunni og gegn launastefnu Apple á hluthafafundi í mars. Sjóðurinn hefur einnig greitt atkvæði gegn launastefnum IBM, General Electric og Harley-Davidson fyrr í ár. Olíusjóðurinn segist leggja áherslu á Bandaríkin í þessum efnum en þar væri að finna bestu starfskjörin.

Tangen, sem stýrði vogunarsjóðnum AKO Capital áður en hann tók við sem forstjóri olíusjóðsins árið 2020, sagði að vandamálið myndi aðeins versna ef fjárfestar bregðast ekki við stöðunni.

„Ef fjárfestar verða ekki strangari í kosningum þá mun þetta bara halda áfram,“ sagði Tangen. „Við upplifum að vissu leyti að hluthafar hafa ekki sinnt hlutverki sínu á þessu sviði.“ Hann bætti þó við að helst væri að sakast við forstjóra og stjórnir fyrirtækja.

Olíusjóðurinn segist þó ekki vera endilega á móti háum launum og hlunnindum og vísar til þess að hafa greitt atkvæði með langtíma-starfskjarastefnum JPMorgan og Amazon.