Líftæknifyrirtækið Algalíf mun þrefalda framleiðslu sína á astaxanthíni í Reykjanesbæ með því að stækka verksmiðju sína um rúmlega helming. Erlend fjárfesting vegna verkefnisins nemur um fjórum milljörðum króna, að því er segir í fréttatilkynningu.

Um það bil 100 innlend störf munu skapast á framkvæmdatímabilinu fram til 2022 og að minnsta kosti 35 ný framtíðarstörf munu skapast hjá fyrirtækinu, eins og er starfa 35 manns hjá félaginu. Í kjölfarið verður Algalíf eitt stærsta örþörunga fyrirtæki í heimi og er stækkunin að fullu fjármögnuð erlendis frá.

Sjá einnig: Orkuverð og loftslag veita forskot

„Ársveltan mun nærri fjórfaldast eftir stækkun og fara úr einum og hálfum milljarði króna í um fimm og hálfan milljarð“ segir Orri Björnsson, forstjóri Algalífs. Byggðir verða um 7.000 fermetrar til viðbótar við þá 5.500 fermetra sem núþegar eru. Ársframleiðsla fer úr rúmum 1.500 kílóum af hreinu astaxanthíni í rúmlega 5.000 kíló.

„Öll framleiðsla þessa árs er löngu seld og bróðurpartur framleiðslu næsta árs líka. Markaðshorfur eru mjög góðar og fjögurra milljarða erlend fjárfesting sýnir trú á því sem við erum að gera“ segir Orri.

„Öll framleiðsla Algalífs á örþörungum fer fram í stýrðu umhverfi innanhúss með umhverfisvænum orkugjöfum, eru bæði magn og gæði stöðug,“ segir í tilkynningunni en úr þörungunum er unnið fæðubótaefnið astaxantín.