Um 350 milljóna króna hagnaður var af rekstri Félagsbústaða fyrstu sex mánuði ársins. Hagnaðurinn er að öllu leyti tilkominn vegna matsbreytinga á virði fasteigna félagsins en þær voru færðar upp um ríflega 1,5 milljarða á tímabilinu.
Þar af leiðandi hefði verið um milljarða tap af rekstri Félagsbústaða á fyrri helmingi ársins ef ekki hefði komið til matsbreytinga á fasteignum félagsins.
Um 350 milljóna króna hagnaður var af rekstri Félagsbústaða fyrstu sex mánuði ársins. Hagnaðurinn er að öllu leyti tilkominn vegna matsbreytinga á virði fasteigna félagsins en þær voru færðar upp um ríflega 1,5 milljarða á tímabilinu.
Þar af leiðandi hefði verið um milljarða tap af rekstri Félagsbústaða á fyrri helmingi ársins ef ekki hefði komið til matsbreytinga á fasteignum félagsins.
Seldu tvo bílskúra
Eðli málsins samkvæmt verður hagnaður sem myndast með þessum hætti ekki innleystur nema með eignasölu. Undanfarin ár hefur verið gagnrýnt hversu ráðandi þáttur matsbreytingar eru í uppgjörum Félagsbústaða og minnihlutinn í stjórn borgarinnar bent á að það fari gegn tilgangi starfsemi félagsins að selja frá sér fasteignir.
Fram kemur í uppgjörinu að félagið hafi í fyrra selt þrjár íbúðir og tvo bílskúra en ekki gert frekari grein fyrir söluhagnaði af þeim viðskiptum.
Rekstrartekjur Félagsbústaða voru 3,4 milljarðar á tímabilinu og námu leigutekjur 3,2 milljörðum. Leigutekjurnar jukust um 300 milljónir miðað við sama tímabil í fyrra. Rekstrargjöld lækkuðu miðað við sama tímabil en þau voru 1,8 milljarðar á tímabilinu en ríflega tveir milljarðar í fyrra. Mun þar mestu um að útgjöld vegna viðhalds og framkvæmda lækkuðu um þrjú hundruð milljónir miðað við sama tímabil í fyrra.
Gert ráð fyrir 3,7 milljarða hagnaði
Það sem vekur sérstaka athygli við uppgjör Félagsbústaða er hversu fjarri rekstrarniðurstaðan er fjárhagsáætlun borgarinnar sem lögð var fram í borgarráði í október í fyrra.
Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að Félagsbústaðir skili tæplega 3,7 milljarða króna hagnaði í ár þannig að ljóst er að seinni hluti ársins þarf að vera kraftmikill í rekstri þessa félagslega leigufélags til að það markmið náist.