Alþingi samþykkti rétt í þessu fjármálaáætlun fyrir árin 2024 til 2028 með 34 atkvæðum gegn 21.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason í Miðflokknum greiddu ekki atkvæði og þá voru sex þingmenn fjarverandi.
Minnihlutinn reyndi að koma í gegn 11 breytingartillögum án árangurs áður en kosið var um fjármáláætlunina.
Vill taka til skoðunar breytingar á ferlinu
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra sagði á Alþingi í dag að umræðan í kringum fjármálaáætlun litaðist oft á tíðum af því sem hann myndi vilja kalla „fimm ára fjárlagagerð.“
„Þegar við erum að ræða um fjármálaáætlun sem eiga að vera umræður um breiðu línurnar í ríkisfjármálum og þær áherslur sem stjórnin vill beita sér fyrir á komandi árum,” sagði Bjarni sem vill taka við skoðunar að fullbúin fjármálaáætlun með stefnumörkun í öllum málaflokkum ætti kannski fyrst og fremst heima í upphafi kjörtímabils hverrar ríkisstjórnar.
Frumjöfnuður forsenda til að greiða af lánum
Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs verði 74 milljörðum kr. betri í ár en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Hann verður því jákvæður um 24 milljarða gangi áætlanir eftir.
Í jákvæðum frumjöfnuði felst að tekjur ársins eru hærri en útgjöld að frátöldum vaxtatekjum og -gjöldum.
Er það er í fyrsta sinn frá árinu 2019 sem frumjöfnuður er jákvæður og næst sá fyrr en síðasta fjármálaáætlun gerði ráð fyrir.
„Það eru engar smá sviptingar í afkomu ríkissjóðs á frumjöfnuði en frumjöfnuðurinn er forsenda þess að við höfum yfir höfuð bolmagn til þess að greiða af lánum okkar án þess að taka bara hrein ný lán á móti,“ sagði Bjarni á Alþingi.

