Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,6% í 5,4 milljarða króna viðskiptum í dag. Þriðjungur veltunnar var með hlutabréf Marels sem hækkuðu um 2,9%, mest af félögum Kauphallarinnar. Gengi Marels stendur nú í 568 krónum eftir 16% hækkun á einum mánuði.

Næst mesta veltan var með hlutabréf Kviku banka sem hækkuðu um hálft prósent í 700 milljóna viðskiptum. Gengi Kviku stendur nú í 20,7 krónum á hlut eftir 12,7% hækkun á einum mánuði.

Tíu félög á aðalmarkaðnum lækkuðu í viðskiptum dagsins. Gengi Íslandsbanka og Arion banka lækkaði um 0,6-1,1% í dag. Þá stóð gengi Nova í 3,86 krónum á hlut eftir 0,5% lækkun í dag og hefur nú aldrei verið lægra.

Á First North-markaðnum var mesta veltan með hlutabréf Alvotech sem hækkuðu um 2,3% í hundrað milljóna króna viðskiptum. Gengi Alvotech hefur lækkað töluvert á síðustu vikum og náði sínu lægsta gengi frá skráningu í 786 krónum á þriðjudaginn.