Amazon hefur tilkynnt um að félagið hafi ákveðið að fækka starfsmönnum um tæplega 9 þúsund, til viðbótar við fyrri hópuppsagnir.

„Í ljósi þeirrar efnahagsóvissu sem við stöndum nú frammi fyrir og þeirri óvissu sem ríkir í náinni framtíð höfum við ákveðið að vera straumlínulagaðri í kostnaði og starfsmannafjölda hjá okkur,“ segir Andy Jassy, forstjóri Amazon, í yfirlýsingu.

Amazon tilkynnti í byrjun ársins að samstæðan hefði ákveðið að skera niður 18 þúsund störf. Meirihluti þeirrar uppsagnarlotu náði til vefverslana- og mannauðssviðs samstæðunnar. Jassy sagði að hin 9 þúsund störf sem bætast við listann megi rekja til þess að ýmis svið höfðu ekki lokið við mat á hvaða stöður ætti að leggja niður.

Starfsmannafjöldi Amazon jókst verulega í Covid-faraldrinum þegar neytendur versluðu í auknum mæli í vefverslunum. Þegar eftirspurn byrjaði að dragast saman ákvað samstæðan að ráðast í hagræðingaraðgerðir, fækka verkefnum í óarðbærari einingum og setja á ráðningarbann.