Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, segir mannvirkja- og byggingariðnaðinn almennt í góðu jafnvægi þó fjárfestingar í innviðum og uppbygging húsnæðis hafi því miður ekki verið í takti við þörf undanfarin ár. „Fyrirsjáanleiki í framkvæmdum þarf að vera betri svo mannvirkjaiðnaður geti gert raunhæfar áætlanir en vonandi eru þeir dagar liðnir þegar sveiflur á milli góðra og slæmra ára voru mjög ýktar, sem hafði verulega slæm áhrif á iðnaðinn.“

Árni bendir á að ákveðin stöðnun átt sér stað í innviðaframkvæmdum á undanförnum árum og það bitni á fyrirtækjunum sem starfa í þessum iðnaði. „Þrátt fyrir það bera fyrirtækin sig almennt vel, hafa staðfastlega sýnt mikla aðlögunarhæfni og staðan nokkuð góð. Það blasir við að ráðast þarf í bæði nýjar innviðaframkvæmdir sem og viðhald til að tryggja áframhaldandi vöxt samfélagsins,“ segir hann og bendir í því samhengi til nýrrar skýrslu sem SI gerði í samstarfi við Félag ráðgjafarverkfræðinga um ástand og framtíðarhorfur innviða hér á landi.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að vöxtur innviðakerfisins hafi ekki fylgt eftir vexti hagkerfisins. Hægur vöxtur innviðakerfisins sé hamlandi fyrir framtíðarvaxtarmöguleika hagkerfisins og geti haft alvarleg áhrif á verðmætasköpun, lífsgæði og samkeppnishæfni Íslands. Þá er innviðaskuldin metin á 680 milljarða króna og hækkar um 260 milljarða frá útgáfu sambærilegrar skýrslu fyrir fjórum árum.

„Innviðaskuldin er eitthvað það óhagstæðasta lán sem ríkið getur tekið, ef svo má segja. Skuldin sem hefur farið sívaxandi dregur úr lífskjörum landsmanna og veikir samkeppnishæfni þjóðarinnar. Endurbætur á vegakerfi eru þar langbrýnastar auk þess sem styrkja þarf orkuinnviði myndarlega,“ segir Árni.

Uppsöfnuð viðhaldsskuld í vegakerfinu er mest eða á bilinu 265-290 milljarðar. „Allir sem ferðast um vegi landsins finna að staðan er verri en hún hefur verið lengi. Það hafa verið stefnumál og fyrirheit hjá fyrri ríkisstjórnum að setja aukna fjármuni í viðhald vegakerfisins. Það hefur að einhverju leyti skilað árangri en ekki nærri því nógu miklum. Við setjum þessa skýrslu fram sem áskorun til stjórnvalda um að einblína á vinna skuldina niður eins fljótt og auðið er.“

Eins og fyrrgreindar tölur sýni blasi við að ráðast þurfi í nýframkvæmdir og viðhald á hinum ýmsu sviðum innviða. „Við finnum fyrir því að stjórnvöld eru vel meðvituð um innviðaskuldina og við eigum í góðu samtali við flesta aðila sem koma nálægt innviðaframkvæmdum. Innviðaskuldin á ekki bara við vegakerfið heldur einnig aðra þjóðhagsleg mikilvæga innviði á borð við veitu- og raforkuflutningskerfi, fasteignir hins opinbera, hafnir og flugvelli. Það er lykilatriði fyrir samfélagið að þessum innviðum sé haldið við og þeim ekki leyft að drabbast niður.“

Óbreytt ástand stöðnunar ekki í boði

Orkumálin hafa tekið drjúgt pláss í samfélagsumræðunni undanfarið, enda hefur stöðnun í uppbyggingu nýrra virkjana leitt til þess að orkuskortur ríkir nú í landinu. Aðspurður kveðst Árni telja að ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins sé með skynsamlegar áætlanir um frekari orkuöflun. „Þó gleymum við því ekki að stjórnvöldum hefur reynst auðvelt að setja fram loforð og stefnur um aukna orkuöflun en erfiðara að koma þeim í framkvæmd.“

Rammaáætlun sé ein birtingarmynd af því og hávær minnihluti hafi lengi vel náð að dreifa orkumálum á dreif. „Því miður snerist umræðan of lengi um hvort raunverulega væri þörf á aukinni orku eður ei, sem ég hygg að fáir deili um nú. SI hafa um langa hríð bent á þá grafalvarlegu stöðu sem nú hefur raungerst, vissulega stundum fyrir daufum eyrum en dropinn holar steininn. Ég tel auðsýnt að þverpólitískur vilji sé fyrir því að fara nú í myndarlegt átak hvað þetta varðar. Staðreyndin er einfaldlega sú að án orku verður ekki hagvöxtur.“

Rétt eins og með innviðaskuldina muni þurfa skýra aðgerðaáætlun og hæfilegan skammt af þolinmæði til að koma málunum á réttan kjöl. „Þetta mun taka tíma. Á meðan tapast fjölmörg tækifæri og við verðum fátækari fyrir vikið. Áætlanir nýrrar ríkisstjórnar í orkumálum hljóma raunhæf og komast vonandi sem fyrst í gang. Aðgerðir orkumálaráðherra til að bregðast skjótt við þeirri stöðu sem upp er komin varðandi Hvammsvirkjun eru lofandi. Við munum, nú sem endranær, halda stjórnvöldum við efnið og styðja við aukna skynsamlega orkuöflun því óbreytt ástand stöðnunar er ekki í boði.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins um Iðnþing. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.