Jafnvel þótt markmið Reykjavíkurborgar um fjölgun leikskólarýma um 1.680 á árunum 2022 til 2025 náist mun vanta 1.775 leikskólapláss í árslok 2026 sé miðað við spá Byggðastofnunar um fjölda barna á aldrinum 1-5 ára í höfuðborginni, sem kom út snemma í mars á þessu ári. Spáin gerir ráð fyrir 10.160 börnum á leikskólaaldri í árslok 2026, sem samsvarar rúmlega 37% fjölgun frá árinu 2021, en miðað við áætlanir Reykjavíkurborgar verða einungis 8.385 leikskólapláss á þeim tímapunkti.

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar árið 2018 sagði borgarstjóri það vera verkefni kjörtímabilsins að klára uppbyggingu leikskólanna og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Hann sagði að fjölga þyrfti leikskólaplássum um 800 og lofaði því að hægt yrði að bjóða 12-18 mánaða börnum pláss á leikskólum borgarinnar á kjörtímabilinu.

Stýrihópurinn „Brúum bilið", sem skipaður var í maí 2016 og skilaði tillögum að uppbyggingu leikskóla í Reykjavík í nóvember 2018, lagði til að leikskólaplássum yrði fjölgað um 700-750 á næstu fimm árum svo að bjóða mætti öllum börnum tólf mánaða og eldri leikskólavist í borginni fyrir lok árs 2023. Á árunum 2019 til 2021 fjölgaði leikskólaplássum um 320, en það sem af er þessu ári hefur þeim leikskólaplássum fjölgað um 130 til viðbótar. Af þeim 720 leikskólarýmum sem gert er ráð fyrir til viðbótar á árinu 2022 voru 300, eða 42%, annaðhvort enn í undirbúningi eða á stigi hönnunar í byrjun mars, en framkvæmdir stóðu þá yfir á 420 leikskólaplássum. Þess ber að geta að þau 850 rými sem gert er ráð fyrir á þessu ári samsvari 2,6 sinnum þeim fjölda rýma sem bætt var við síðustu þrjú árin á undan.

Gert ráð fyrir gegnumgangandi biðlistum

Í uppfærðum tillögum stýrihóps um uppbyggingu leikskóla frá því í mars síðastliðnum, þar sem áform um fjölgun leikskólaplássa eru lögð fram, er gert ráð fyrir að börn á leikskólaaldri verði 9.109 í lok árs 2026, sem er 725 umfram þann fjölda leikskólaplássa sem áætluð eru. Er gert ráð fyrir að þau börn verði á biðlista, en í gegnum alla spána er gert ráð fyrir færri leikskólaplássum en börnum á leikskólaaldri í árslok. Stýrihópurinn miðar við mannfjöldaspá Hagstofunnar um landið í heild sinni og gert ráð fyrir að hlutfall Reykjavíkur í heildarmannfjölda haldist stöðugt. Sú spá er hins vegar talsvert lægri en spá Byggðastofnunar, sem gefin var út viku eftir að tillaga stýrihópsins var samþykkt í Borgarráði. Í skriflegu svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundarsviðs Reykjavíkur, að ekki sé stuðst við tölur Byggðastofnunar í áætlunum borgarinnar.

„[Spáin] hefur nú verið uppfærð af Hagstofunni og aðeins aukist í fjöldann en ekkert stórvægilega. Við styðjumst ekki við tölur Byggðastofnunar því áætlanir þar hafa ekki verið ábyggilegar," segir Helgi. Aukningin er tilkomin vegna stærri 2021 árgangs en upphaflega var gert ráð fyrir og er einnig búist við stórum árgangi 2022.

Í umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs um tillögur stýrihópsins er bent á annmarka þess að færa spá Hagstofunnar fyrir landið í heild yfir á Reykjavík, en þar segir: „Þar sem hlutdeild Reykjavíkur hefur verið nokkuð breytileg síðustu árin hefur fjármála- og áhættustýringarsvið stuðst í auknum mæli við mannfjöldaspá Byggðastofnunar sem unnin er niður á sveitarfélög. Spá Byggðastofnunar er hins vegar frá árinu 2019 og því orðin nokkuð gömul. Samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun er verið að vinna uppfærða spá en þar sem sú spá liggur ekki fyrir er raunhæfast að byggja á mannfjöldaspá Hagstofunnar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .