Hagstofan hefur reglulega birt leiðréttingar, sumar umfangsmeiri en aðrar. Það sem af er ári 2024 hefur Hagstofan leiðrétt fyrri útgáfur þrisvar.
Auk leiðréttingar á fjölda starfandi í ríkisstofnunum fyrr í mánuðinum - þar sem ríkisstarfsmenn reyndust ofmetnir um fimm þúsund - leiðrétti Hagstofan í febrúar bráðabirgðatölur um vöruviðskipti og í júlí var frétt um gistinætur á hótelum leiðrétt.
Sé horft aftur til ársins 2018 er algengt að tölur um vöruviðskipti séu leiðréttar en það var gert tvívegis árið 2022 og einu sinni árið 2019 auk þess sem tölur um vöruviðskiptajöfnuð voru leiðréttar árið 2020.
Meðal annarra talna sem hafa verið leiðréttar voru kaupmáttur ráðstöfunartekna og losun gróðurhúsalofttegunda árið 2023, vísitala byggingakostnaðar og tekjusamdráttur fjölmiðla árið 2021, vísitala neysluverðs árið 2020, og skráðar gistinætur árið 2019. Þá hafa tölur um landsframleiðslu verið leiðréttar tvívegis, árið 2019 og árið 2018.
Í byrjun árs 2024 birti Hagstofan síðan endurmat á þjóðhagsreikningum fyrir árin 2020-2022, samhliða útgáfu landsframleiðslunnar fyrir árið 2023. Við þá endurskoðun kom í ljós að landsframleiðslan hefði dregist saman um 6,9% en ekki 7,2% árið 2020 og að hagvöxtur hafi verið 5,1% en ekki 4,5% árið 2021. Mesti munurinn birtist í tölum fyrir árið 2022, þar sem hagvöxtur reyndist 8,9% en ekki 7,2%.
Gömul saga og ný
Umræða um mistök Hagstofunnar er ekki ný af nálinni. Árið 2016 gerði Hagstofan til að mynda mistök við mælingu vísitölu neysluverðs í marsmánuði þess árs og neitaði að birta leiðrétta vísitölu yfir sex mánaða tímabil.
„Mistök geta átt sér stað hjá Hagstofunni líkt og annars staðar. Til að unnt sé að læra af þeim skipta viðbrögðin máli,“ sagði Björn Brynjúlfur Björnsson, þáverandi hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, í grein sem birtist í Viðskiptablaðinu.
Umræðan kom síðan aftur upp árið 2019 eftir að óvenjumargar leiðréttingar höfðu komið frá Hagstofunni. „Það hefur verið ansi þétt röð af mistökum hjá stofnuninni á þessu ári. Óraunhæft væri að ætla að það hafi ekki áhrif á traust á þessum gögnum,“ sagði Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, í viðtali við Markaðinn á Fréttablaðinu.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.