Franska sjóðastýringafyrirtækið Ardian er ekki reiðubúið að ljúka kaupum á Mílu af Símanum á grundvelli óbreytts kaupsamnings vegna skilyrða sem munu að líkindum fylgja með viðskiptunum. Ljóst er að gríðarlegir fjármunir eru í húfi fyrir Símann sem hafði komist að samkomulagi við Ardian um að heildarvirði Mílu í viðskiptunum yrði 78 milljarðar króna.

Ardian upplýsti Símann í dag að það væri mat sjóðastýringafyrirtækisins að tillögur um skilyrði sem það lagði fyrir Samkeppniseftirlitið (SKE) væru íþyngjandi og þess eðlis að fela í sér neikvæð áhrif í skilningi kaupsamningsins.

Ardian óskaði eftir sáttarviðræðum við SKE í síðustu viku eftir að samrunaaðilum barst andmælaskjal frá eftirlitinu með frummati um að samruninn raski samkeppni og verði ekki samþykktur án skilyrða og/eða frekari útskýringum.

„Það væri mat Ardian að ef samruninn verði samþykktur af hálfu samkeppnisyfirvalda með fyrirliggjandi skilyrðum feli það í sér að eitt af skilyrðum þess að viðskiptin gangi í gegn samkvæmt kaupsamningnum teljist ekki uppfyllt. Ardian hefur upplýst að félagið sé ekki reiðubúið til þess að ljúka viðskiptunum á grundvelli óbreytts kaupsamnings,“ segir í tilkynningu sem Síminn sendi til Kauphallarinnar í kvöld.

Síminn segir ljóst að þörf er á viðræðum við Ardian um atriði sem varða kaupsamninginn samhliða viðræðum Ardian við Samkeppniseftirlitið.

Síminn gekk frá umræddum kaupsamningi vegna sölu á Mílu til sjóðs í stýringu hjá Ardian í október 2021. Heildarvirði Mílu í viðskiptunum (e. enterprise value) er 78 milljarðar króna og áætlaður söluhagnaður Símans er rúmlega 46 milljarðar króna. Samkvæmt samningnum fær Síminn greitt á efndadegi um 44 milljarða króna í reiðufé og 15 milljarða í formi skuldabréfs til þriggja ára. Við afhendingu Mílu til Ardian á að taka gildi 20 ára heildsölusamningur á milli Símans og Mílu samkvæmt þessum samningi.