Arnar Sigurðsson, eigandi Sante, hefur sent Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) erindi vegna yfirlýsingar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) þar sem sjóðurinn lýsir yfir áhyggjum af áfengissölu Hagkaups, dótturfélags Haga, í netverslun.
Arnar skorar á Fjármálaeftirlitið að kanna hvort aðgerðir LSR brjóti gegn lögum og reglum um góða stjórnarhætti, jafnræði hluthafa og armslengdarreglu.
„Nýlegar aðgerðir LSR vekja áhyggjur um að sjóðurinn hafi farið út fyrir heimildir sínar sem hluthafi og brotið gegn lögum og reglum um góða stjórnarhætti og nokkuð augljóslega virt að vettugi hagsmuni annarra hluthafa Haga,“ segir í bréfi Arnars.
„Aðgerðir LSR hafa falist í beinum tilmælum og afskiptum sem beint hefur verið til fyrirtækisins og stjórnarmanna sem svo endurspeglast í yfirlýsingu á vef sjóðsins.“
Ef brot koma í ljós, væntir hann þess að gripið verði til viðeigandi aðgerða „þar með talið beitingu stjórnvaldssekta eða annarra viðurlaga eins og lög kveða á um“.
Arnar segir að ef LSR verði talið hafa farið út fyrir heimildir sínar sem hluthafi og haft óeðlileg afskipti af rekstri Haga, gæti það talist brot á skyldum þeirra og jafnvel leitt til ábyrgðar á grundvelli umboðssvika samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Geti skaðað hagsmuni annarra hluthafa
Í yfirlýsingu sem LSR, næst stærsti hluthafi Haga með 13,5% hlut, birti á heimasíðu sinni á þriðjudaginn kemur fram að stjórnendur lífeyrissjóðsins hafi átt samtal við forsvarsmenn Haga í kjölfar þess að Veigar, vefverslun Hagkaups með áfengi, fór í loftið.
LSR segist deila áhyggjum margra um að netverslanir með áfengi kunni að leiða til aukinna lýðfræðilegra og félagslegra vandamála. Sjóðurinn sagði Haga bera mikla ábyrgð vegna stærðar sinnar „sérstaklega ef ráðist er í aðgerðir á borð við þessar, þar sem augljóslega er reynt á þanþol bæði laga og samfélagslegrar ábyrgðar“.
Arnar segir að opinbera afstaða LSR sem stórs hluthafa og beiting þrýstings á stjórn Haga til að endurskoða rekstrarákvarðanir sínar veki upp spurningar um hvort LSR sé að fara út fyrir hlutverk sitt sem hluthafi og brjóti þannig gegn lögum og tilmælum um góða stjórnarhætti.
„Slík afskipti geta haft neikvæð áhrif á hagsmuni annarra hluthafa og á langtíma arðsemi félagsins. Það getur einnig skapað fordæmi fyrir óeðlilegum afskiptum stórra hluthafa af daglegum rekstri fyrirtækja, sem er andstætt heilbrigðum viðskiptaháttum og getur skaðað traust á fjármálamarkaði.“
Þá verði ekki séð að sjóðurinn hafi undangengið aflað sér gagna eða álits um orsakasamhengi áfengisneyslu og verslunar fyrirkomulags „enda engu slíku til að dreifa“.
Arnar segir mikilvægt fyrir traust á fjármálamarkaðnum að tryggt sé að allir markaðsaðilar fari að lögum og reglum, og að stórir hluthafar misnoti ekki aðstöðu sína á kostnað annarra hluthafa eða markaðarins í heild. Gildir þá einu hvort um misskilning sé að ræða eða annarlegan tilgang.
Arnar vísar í bréfinu í lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða en samkvæmt þeim beri lífeyrissjóðum að gæta hagsmuna sjóðfélaga með ábyrgu fjárfestingastarfi og fylgja viðurkenndum viðmiðum um góða stjórnarhætti.
Í lögum um hlutafélög komi jafnframt fram að hluthafar skuli ekki misnota aðstöðu sína og skulu gæta jafnræðis og góðra viðskiptahátta. Einnig segi í 1. mgr. 54. gr. sömu laga að stjórn félagsins fari með málefni þess og ber ábyrgð á stjórnun þess.
„Samkvæmt leiðbeinandi tilmælum nr. 1/2010 frá Fjármálaeftirlitinu um stjórnarhætti fyrirtækja er lögð áhersla á að tryggja sjálfstæði stjórnar og að stórir hluthafar skuli ekki hafa óeðlileg áhrif á stjórn félaga eða daglegan rekstur þeirra. Armslengdarreglan er grundvallarþáttur í góðum stjórnarháttum og er ætlað að koma í veg fyrir skuggastjórnun af hálfu stórra hluthafa,“ segir Arnar.