Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað fyrir tveimur vikum að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%. Það var fimmta vaxtaákvörðun nefndarinnar í röð þar sem hún ákvað halda vöxtum óbreyttum.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað fyrir tveimur vikum að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%. Það var fimmta vaxtaákvörðun nefndarinnar í röð þar sem hún ákvað halda vöxtum óbreyttum.
Í fundargerð nefndarinnar, sem birt var fyrir skemmstu, kemur fram Arnór Sighvatsson, settur varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra um að halda vöxtum óbreyttum. Arnór vildi fremur lækka vexti um 0,25 prósentur, úr 9,25% í 9,0%. Aðrir nefndarmenn greiddu atkvæði með tillögunni.
„[Arnór taldi] að hætta væri á að taumhald peningastefnunnar yrði of þétt á næstunni,“ segir í fundargerðinni.
„Í ljósi þess að hækkun húsnæðisliðar vísitölunnar væri að nokkru leyti sprottin af framboðsskelli sem hefði aðeins tímabundin áhrif á vísitöluna væri eðlilegt að horfa framhjá nýlegri hækkun hans að mestu leyti. Undirliggjandi raunvextir væru því hærri en almennt væri reiknað með og myndu halda áfram að hækka yfir sumarmánuðina. Af þessum sökum vænti hann þess að draga myndi úr umsvifum á húsnæðismarkaði fyrr en almennt væri búist við sem myndi koma fram í hraðari hjöðnun verðbólgu.“
Í fundargerðinni segir að peningastefnunefnd telji auknar líkur á að núverandi aðhaldsstig væri hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma.
Tók við af vaxtadúfu
Í lok síðasta mánaðar var tilkynnt um að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði sett Arnór tímabundið í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika frá 1. maí 2024 og mun hann gegna stöðunni þar til skipað verður í embættið.
Arnór tók tímabundið við embættinu af Gunnari Jakobssyni sem hafði gegnt því frá árinu 2020.
Gunnar, sem baðst nýverið lausnar úr embættinu til að taka við stjórnendastöðu hjá banka í Mílanó, kaus einnig gegn tillögum Ásgeirs um óbreytta stýrivexti á fundum peningastefnunefndar í febrúar og mars síðastliðnum en Gunnar vildi fremur lækka vexti.