Atvinnuleysi var 2,3% í apríl 2023 samkvæmt árstíðaleiðréttum niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands og dróst saman um 0,8 prósentustig á milli mánaða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni.

Atvinnuleysi var 2,7% á meðal karla og 1,8% á meðal kvenna. Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 80,9% og árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi var 79,0%.

Búast við auknu atvinnuleysi

Fyrr í morgun tilkynnti peningastefnunefnd Seðlabankans að stýrivextir hafi verið hækkaðir um 125 punkta. Í ritinu Peningamálum, sem Seðlabankinn gaf á sama tíma út, kemur fram að áfram sé töluverð spenna á vinnumarkaði en talið sé að hægja muni á fjölgun starfa, atvinnuleysi aukist og spennan í þjóðarbúinu minnki þegar líður á spátímann.