Forsætisráðuneytið tilkynnti í dag um framkvæmd samráðsferlis um áformaða atvinnustefnu Íslands til ársins 2035. Í samráðsgátt segir að atvinnustefnan eigi að lýsa því hvernig stjórnvöld vinni með atvinnulífinu „að aukinni verðmætasköpun í jafnvægi við samfélag, umhverfi og innviði“.

„Tilgangur vinnu að atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar er að móta stefnu, ásamt markmiðum og mælikvörðum, sem lýsir því hvernig stjórnvöld vilja vinna með atvinnulífinu og svarar því hvaðan hagvöxtur næstu ára skuli koma. Skilgreindar verða aðgerðir sem ríkistjórnin telur að ráðast þurfi í til að vinna að markmiðum stefnunnar,“ segir í samráðsgáttinni.

Í áformaskjali sem ráðuneytið birtir segir að auðlindagreinar og hugverkaiðnaður verði áfram í lykilhlutverki. Stjórnvöld muni styðja sérstaklega við vaxtartækifæri útflutningsgreina þar sem framleiðni vinnuafls er mikil. Þá verði lögð áhersla á hvata til nýsköpunar og árangur í loftslagsmálum í atvinnulífinu.

„Aðgengi að hagkvæmri og endurnýjanlegri orku verður aukið til að styðja við hagvöxt og orkuskipti. Þá munu stjórnvöld verja aðgengi að erlendum mörkuðum með virkri hagsmunagæslu á alþjóðlegum vettvangi.“

Jafnframt kemur fram að til standi að ráðast í samstilltar aðgerðir til að efla innviði, einfalda regluverk og auka skilvirkni í opinberri stjórnsýslu.

Verði formlega gefin út á fyrsta fjórðungi 2026

Ríkisstjórnin stefnir að því að atvinnustefnan verði samþykkt og gefin út á fyrsta ársfjórðungi 2026. Forsætisráðuneytið, sem mun leiða stefnumótunina, mun halda opinn fund 4. september næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica.

„Þar verður fjallað um helstu áherslur ríkisstjórnarinnar í væntanlegri atvinnustefnu og vegferðina næstu mánuði varðandi mótun stefnunnar. Nánari upplýsingar um dagskrá, fyrirlesara og skráningu verða kynntar síðar,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Áformað er að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra skipi í kjölfarið ráðgefandi atvinnustefnuráð. Þá er horft til þess að drög að atvinnustefnu verði birt til umsagnar í samráðsgátt í október og unnið verði úr umsögnum og fundað með lykilhagaðilum á fjórða ársfjórðungi.

Ríkisstjórnin kallar eftir endurgjöf um áform ríkisstjórnarinnar og óskar eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

  1. Hver ættu helstu markmið og lykilmælikvarðar að vera varðandi þróun atvinnulífs næstu tíu ár?
  2. Til hvaða aðgerða geta stjórnvöld gripið til að efla útflutning, fjölga vel launuðum störfum og auka framleiðni vinnuafls næstu tíu ár?
  3. Hvaða útflutningsgreinar, þar sem framleiðni vinnuafls er há og loftslagsáhrif eru takmörkuð, geta vaxið mest á næstu tíu árum og náð árlegum útflutningi sem nemur tugum milljarða króna?

Í áformaskjali sem ráðuneytið birtir er að finna drög að inngangi atvinnustefnunnar. Þar segir meðal annars:

„Atvinnustefna Íslands er 10 ára vaxtarplan sem lýsir því hvernig stjórnvöld vinna með atvinnulífinu að aukinni verðmætasköpun. Meginmarkmið stefnunnar er að fjölga vel launuðum störfum um land allt og styðja við hagvöxt í jafnvægi við samfélag, umhverfi og inniviði.

Með markvissri atvinnustefnu mun ríkisstjórnin samhæfa aðgerðir stjórnvalda til stuðnings atvinnulífi og veita fyrirsjáanleika til fjárfestinga. Stefnan skapar skýran ramma um vöxt og verðmætasköpun í landinu til lengri tíma sem verða drifin af auknum útflutningi.“