Sjóðastýringarfélagið Stefnir og nýsköpunarfyrirtækið HILI undirrituðu samstarfssamning í síðustu viku og stofnuðu þar með HILI I slhf., fimmta fasteignasjóð Stefnis. Markmiðið er að skapa aðgang að nýjum fjárfestingarkosti þar sem fjárfestar geta keypt íbúðareignir í gegnum sameignarlausn sem HILI hefur þróað.

HILI býður fasteignaeigendum að selja hluta úr eign sinni til sjóðsins en halda áfram að búa í húsnæðinu. Þetta er talin hentug lausn fyrir fólk sem á mikið eigið fé bundið í húsnæði sínu en er með takmarkað laust fé.

Sigurður Viðarsson, framkvæmdastjóri HILI á Íslandi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að HILI stefni að því að byrja fjárfesta í fasteignum í ágústmánuði. Nú þegar hafa yfir 300 fasteignaeigendur skráð sig á biðlista til að kanna möguleikann á að selja hluta af eign sinni til sjóðsins.

„Nú er að fara af stað og hitta fjárfesta,“ segir Sigurður.

Sigurður bendir á að í núverandi umhverfi geti verið erfitt fyrir fólk með takmarkað fjármagn að fá lán frá bönkum.

Sigurður Viðarsson, framkvæmdastjóri HILI á Íslandi.
Sigurður Viðarsson, framkvæmdastjóri HILI á Íslandi.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Lánshlutföll eru komin hátt víða og reglur um greiðslumat setja skorður. Þetta er lausn fyrir fólk sem á talsvert eigið fé bundið í húsnæði en hefur lítið á milli handanna.“

HILI tengir saman fasteignaeigendur og fjárfesta. Sjóðurinn kaupir 10–50% hlut í íbúðarhúsnæði einstaklinga, að því gefnu að viðkomandi búi þar áfram. Skuldsetning meðeigandans má þó ekki fara yfir 75%.

„Fólk getur búið áfram í húsnæði sínu en losað um fé með því að selja okkur hluta,“ segir Sigurður og nefnir að um 11.000 milljarðar króna séu bundnir í íbúðarhúsnæði á Íslandi – fjárhæð sem fari yfir stærð lífeyrissjóðakerfisins. Aðspurður um hverjir hafi sýnt mestan áhuga, segir Sigurður að fyrirspurnir hafi borist víða að.

„Við höfum fengið fullt af fyrirspurnum frá eldra fólki sem getur ekki tekið lán út á húsnæðið, er með lágan lífeyri en á kannski húsnæðið sitt skuldlaust. Þetta eru líka foreldrar sem vilja hjálpa börnum sínum í fasteignakaupum en eiga ekki mikið laust fé en á mikið í eigin fasteign. Svo er þetta fólk sem er að skilja og annar aðilinn vill búa í húsinu með börnunum en getur ekki keypt hinn út.“

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 5.995 kr. á mánuði