Ullarþon, nýtt verkefni sem ætlað er að auka verðmæti verðminnstu ullarflokkanna, fer fram dagana 25.-29. mars næstkomandi. Textílmiðstöð Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands standa fyrir Ullarþoninu og er verkefnið styrkt af Framleiðnisjóði Landbúnaðarins.

„Þetta er samkeppni þar sem þátttakendur keppast um að leysa verkefni. Það eru fjórir flokkar sem keppt er í og keppnin stendur yfir í stuttan tíma," segir Jóhanna Erla Pálmadóttir, verkefnastjóri hjá Textílmiðstöð Íslands, sem stýrir Ullarþoninu ásamt Huldu Birnu Kjærnested Baldursdóttur, verkefnastjóra hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Flokkarnir fjórir sem keppt verður í eru; þróun á vinnslu textíls úr óunninni ull, blöndun annarra hráefna við ull, ný afurð, og stafrænar lausnir og rekjanleiki.

„Við hjá Textílmiðstöðinni leggjum mikla áherslu á íslensku ullina, þar sem hún er okkar aðalhráefni við textílgerð hér á landi. Hugmyndin að Ullarþoninu kemur frá Karli Friðrikssyni hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og um leið og hann nefndi hana þótti hugmyndin smellpassa inn í áherslur Textílmiðstöðvarinnar. Svo kemur Nýsköpunarmiðstöð að borðinu með kunnáttu í að framkvæma svona keppnir. Hulda hefur mikla reynslu í að halda svona keppnir og er því sérfræðingur í framkvæmdinni meðan ég er sérfræðingur í ullinni og því sem að henni snýr," segir Jóhanna. Hún segir að meðan á keppninni standi verði ýmislegt í gangi og hóparnir geti m.a. hlýtt á fyrirlestra hinna ýmsu sérfræðinga.

Skráning farið vel af stað

Líkt og fyrr segir snýst keppnin um að auka verðmæti verðminnstu flokka íslensku ullarinnar. „Fyrsti flokkurinn fer allur í prjónaband og í raun er skortur á framboði í fyrsta flokknum vegna vinsælda. Hinir flokkarnir eru oft á tíðum fluttir út til vinnslu erlendis. Hugmyndafræðin á bak við Ullarþonið er því að finna leiðir til að nýta þessa verðminni flokka hér heima til að minnka kolefnisspor," segir Jóhanna.

„Skráning í keppnina hefur farið mjög vel af stað og við höfum fundið fyrir miklum áhuga frá fólki, sem er mjög ánægjulegt. Það er einnig dásamlegt að finna að fólk virðist hafa verið að hugsa um nákvæmlega þetta, hvernig hægt sé að auka verðmæti ullarinnar, en ekki fundið leið til að koma þeim hugmyndum á framfæri," bætir hún við.

Skráning í Ullarþon er þegar hafin og geta áhugasamir annaðhvort skráð sig sem einstaklingur eða teymi. Skráningu lýkur 26. mars. „Meðan á Ullarþoninu stendur hafa þátttakendur aðgang að breiðum hópi sérfræðinga úr hinum ýmsu áttum. Leiðbeinendurnir geta veitt faglega aðstoð, t.d. hvað ullina varðar sem og tæknilega. Við tókum mið af Covid og Ullarþonið fer því fram rafrænt. Það má segja að þetta sé alheimskeppni því við höfum þegar fengið viðbrögð erlendis frá hugsanlegum þátttakendum," segir Jóhanna en Ullarþonið fer fram á íslensku og einnig ensku.

Jóhanna segir að þeir keppendur sem þegar séu skráðir til leiks komi úr hinum ýmsu áttum og séu með ólíkan bakgrunn. „Það eru greinilega margir sem hafa áhuga á að auka verðmæti íslensku ullarinnar og sumir þátttakendur hafa þegar sagt mér frá hugmyndum sem mér hefði aldrei dottið í hug sjálfri. Það er alveg frábært. Maður finnur að fólk hefur mikið verið að pæla í þessu."

Hún segir jafnframt ánægjulegt hve margir sérfræðingar hafi boðið fram krafta sína sem leiðbeinendur. „Við höfum einnig verið að auglýsa eftir leiðbeinendum sem veita þátttakendum stuðning og þeir sem hafa áhuga á að gerast leiðbeinendur hafa tíma til 19. mars til að skrá sig. Þátttakendur geta því verið búnir að kynna sér hverjir munu vera leiðbeinendur áður en Ullarþonið hefst. Leiðbeinendurnir ákveða sjálfir á hvaða tíma þeir gefa kost á sér meðan á Ullarþoninu stendur. Þá geta teymin verið í sambandi við þá á þeim tíma sem þeir gefa upp. Það hafa nokkuð margir leiðbeinendur þegar skráð sig til leiks, en því fleiri því betra."

Úrslit kunngerð á Hönnunarmars

Lokaskil á hugmyndum eru 29. mars og mun dómnefnd þá meta hugmyndirnar og tilkynna um miðjan apríl hverjir enda í topp 5 í hverjum flokki. „Eftir að tilkynnt verður um fimm efstu í hverjum flokki koma þeir hópar aftur fram fyrir dómarana með lyfturæður til að útskýra sínar hugmyndir nánar. Í kjölfarið velja dómararnir hverjir bera sigur úr býtum í hverjum flokki," útskýrir Jóhanna. Úrslit keppninnar verði svo kynnt á Hönnunarmars 2021, sem fer fram í lok maí, en heildarverðmæti vinninga nemur um 1,6 milljónum króna.