Saksóknarar í Bandaríkjunum hafa ákært 12 kínverska ríkisborgara fyrir meintar tölvuárásir gegn bandarískum ríkisstofnunum. Tölvuþrjótarnir munu einnig hafa selt kínverskum yfirvöldum gögn sem tengdust andófsmönnum þeirra sem búsettir eru í Bandaríkjunum.
Bandaríska dómsmálaráðuneytið segir að árásirnar hafi verið styrktar af kínversku ríkisstjórninni en fram kemur í yfirlýsingu að tölvuþrjótarnir hafi einnig ráðist gegn bandarískum trúarsamtökum og dagblaði í Hong Kong.
Kínversk yfirvöld hafa ekki svarað þessum meintu ásökunum en hafa áður fyrr harðlega neitað aðild að öðrum slíkum tölvuárásum.
Það er óljóst hvenær þessar ákærur voru gefnar út en þær voru birtar alríkisdómstóli á Manhattan í gær. Meðal þeirra einstaklinga sem ákærðir voru eru tveir yfirmenn í kínverska almannaöryggisráðuneytinu.
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að tölvuþrjótarnir, sem virtust vera fulltrúar einkafyrirtækisins i-Soon, rukkuðu kínversk yfirvöld um 10 til 75 þúsund dali fyrir hvert pósthólf sem þeir náðu að komast inn í.
„Í dag afhjúpum við umboðsmenn kínverskra stjórnvalda sem stýra og hlúa að kærulausum árásum á tölvur og netkerfi um allan heim. Við munum halda áfram að berjast fyrir gegn þessum netmálaliðum og munum halda áfram að vernda þjóðaröryggi okkar,“ segir Sue J. Bai, sem fer fyrir þjóðaröryggisdeild bandaríska dómsmálaráðuneytisins.
Málið er ekki nýtt af nálinni en á síðasta ári voru sjö kínverskir ríkisborgarar ákærðir fyrir tölvuárásir sem stóðu yfir í 14 ár og beindust að erlendum einstaklingum sem gagnrýndu Kína.