Þetta er náttúrulega svakalega erfitt ástand að eiga við, enda er kakó grunnhráefni í mörgum af okkar vörum,“ segir Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir, forstjóri Nóa Síríus, þegar hún er spurð út í miklar hækkanir á heimsmarkaðsverði á kakó að undanförnu.
Kakóverð náði hámarki í desember sl. þegar það stóð í nærri 10 þúsund breskum pundum á tonnið á hrávörumarkaði í London. Þá hafði kakóverð nærri þrefaldast frá byrjun árs 2024. Það stendur nú í tæplega sjö þúsund pundum á tonnið, en til samanburðar sveiflast verðið á bilinu 1-2 þúsund pund á tonnið í venjulegu árferði.
Þróunin gæti haldið áfram
Öfgar í veðri hafa haft veruleg áhrif á uppskeru á Fílabeinsströndinni og Gana, þar sem tveir þriðju hlutar kakóframleiðslu heimsins fer fram. Þar hafa alvarlegir þurrkar og óvenjumikil úrkoma leitt til uppskerubrests á undanförnum árum. Slík veðurskilyrði hafa jafnframt skapað kjöraðstæður fyrir ýmsa plöntusjúkdóma sem draga verulega úr framleiðslugetu kakótrjáa og geta jafnvel leitt til þess að trén deyi.
Samdráttur í framboði kakóbauna hefur leitt til aukinnar samkeppni um kakóbirgðir, sem hefur ýtt verðinu upp á hrávörumarkaði. Þar sem framleiðsla á kakó fer að mestu leyti fram í örfáum löndum í Vestur-Afríku er markaðurinn sérstaklega viðkvæmur fyrir náttúruhamförum og sveiflum í framboði. Greinendur telja að þróunin muni halda áfram á næstu árum ef framleiðsluskilyrði í löndunum batna ekki.
Jákvæð teikn á lofti
Sigríður segir að á haustmánuðum 2024 hafi henni byrjað að lítast betur á blikuna þegar kakóverð tók að lækka lítillega.
„Við höfðum fulla trú á að það yrði byrjunin á einhverju góðu. En frá því í nóvember hefur markaðurinn skotist lengst upp í hæstu hæðir og náði hámarki í verðpunkti um miðjan desember. Þessar nýlegu hækkanir valda miklum áhyggjum, sérstaklega þar sem það virðast litlar forsendur fyrir þeim.“
Kakó í Nóa súkkulaði kemur frá Fílabeinsströndinni. Sigríður segir að rót vandans sé enn sú sama og verið hefur síðustu misseri – þ.e. uppskerubrestur í ræktunarlöndum vegna langvarandi þurrka og plöntusjúkdóma. Hún tekur þó fram að jákvæð teikn séu á lofti.
„Við höfum séð að kakóverð hefur verið að lækka nokkuð frá því um miðjan febrúar, sem er alltaf jákvætt merki. Frá því að við keyptum síðast kakó í lok janúar hefur verðið lækkað um 17%. Vonandi mun sú þróun halda áfram svo við getum skilað verðlækkunum til neytenda. Okkar gögn benda líka til þess að uppskeran á Fílabeinsströndinni sé e.t.v. eitthvað að taka við sér, miðað við að útflutt magn kakós þaðan hefur verið að aukast.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.