Í tengslum við hlutafjárútboð Hampiðjunnar hf. verður opinn kynningarfundur í Arion banka í dag kl. 10:00. Stjórnendur Hampiðjunnar munu kynna félagið og sögu þess ásamt því að farið verður yfir fyrirkomulag hlutafjárútboðsins.
Hægt er að fylgjast með fundinum í beinni hér að neðan.
85 milljón nýir hlutir í félaginu verða boðnir til sölu í almennu útboði, sem jafngildir 13,37% af heildarhlutafé eftir hlutafjárhækkun þess efnis.
Almenna útboðið skiptist í tvær áskriftarbækur. Annars vegar áskriftarbók A, þar sem 17 milljón nýir hlutir verða boðnir til sölu á föstu verði 120 kr. á hlut, og hins vegar áskriftarbók B, þar sem 68 milljón nýir hlutir verða boðnir til sölu á lágmarksverði 120 kr. á hlut.
Lágmarksverðið í almenna útboðinu, 120 kr. á hlut, jafngildir 14% afslætti á vegið meðalverð (VWAP) hlutabréfa Hampiðjunnar á First North Iceland síðasta mánuðinn.
Gert er ráð fyrir að hlutabréf Hampiðjunnar verði tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar þann 9. júní næstkomandi.