Bensínlítrinn á Íslandi er kominn upp í 345 krónur og hækkaði um tæplega tíu krónur á milli daga. Bensínverð hérlendis hefur hækkað ört á undanförnum misserum í kjölfar sniðgöngu Vesturlanda á rússneskri olíu vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Verð á lítra af bensíni hefur hækkað um 60 krónur frá því að Rússar lýstu yfir sjálfstæði héraðanna Donetsk og Luhansk í austurhluta Úkraínu þann 21. febrúar. Þannig hefur olíuverð á heimsmarkaði hækkað ört að undanförnu eftir innrás Rússa í Úkraínu. Brent Norðursjávarhráolía stendur nú í 124 dölum á tunnu, en var í 79 dölum í upphafi árs.

Sjá einnig: Bensínlítrinn yfir 300 krónur

Flest félög hækkuðu almennt verð á bensínlítra í dag um tæplega tíu krónur, að því er kemur fram á vefnum Gasvaktin.

Bensínlítrinn er dýrastur hjá Atlantsolíu, 345,1 krónur. Hjá N1 er almennt verð á bensínlítra 345 krónur og hjá Olís er hann á 344,9 krónur. Fyrir utan Costco er ódýrasta bensínið hjá Orkunni, það er 343,4 krónur. Bensínlítrinn er eftir sem áður ódýrastur hjá Costco, þar er hægt að fá lítrann á 299 krónur.

Hér að neðan má sjá samanburð á bensínverði milli félaga, en myndin er tekin af vef Gasvaktarinnar. Þar má sjá að bensínverð hjá Costco hefur ávallt verið mun lægra en hjá hinum félögunum.

© Aðsend mynd (AÐSEND)