Skólamatur, félag sem sérhæfir sig í framleiðslu og framreiðslu á ferskum og hollum mat fyrir börn í leik- og grunnskólum, velti 3,2 milljörðum króna á síðasta ári. Til samanburðar nam velta ársins á undan 2,7 milljörðum og nam veltuaukningin því nærri fimmtungi. Velta félagsins hefur aukist verulega á undanförum árum. Til marks um það nam veltan 1,4 milljörðum árið 2020 og hefur hún því rúmlega tvöfaldast á fjórum árum.

Á sama tíma hefur hagnaður félagsins einnig aukist. Í fyrra nam hagnaðurinn 155 milljónum og rúmlega tvöfaldaðist frá fyrra ári er hann nam 74 milljónum. Árið 2024 var besta rekstrarár í sögu Skólamatar, bæði þegar horft er til veltu og hagnaðar.

Líkt og ofangreindar tölur gefa til kynna hafa umsvif Skólamatar vaxið hratt á undanförum árum. Aukning í meðalfjölda stöðugilda varpar einnig ljósi á þessi auknu umsvif. Í lok árs 2020 var meðalfjöldi stöðugilda hjá félaginu 93 en í lok síðasta árs, fjórum árum síðar, voru þau 137. Þar af leiðandi hefur meðalfjöldi stöðugilda aukist um 47% á fjórum árum. Um 200 manns starfa alls í þessum 137 stöðugildum á 90 starfsstöðvum á suðvesturhorni landsins en höfuðstöðvar félagsins eru í Reykjanesbæ.

Eignir Skólamatar námu 809 milljónum í lok síðasta árs og eigið fé 503 milljónum. Eiginfjárhlutfall var því 62%. Engar vaxtaberandi skuldir hvíla á félaginu.

Stöðugar umbætur

Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar, segir lykilinn á bak við vöxt starfseminnar vera gott starfsfólk og áhugasamir viðskiptavinir. „Einnig höfum við fjárfest í góðum og sérhæfum búnaði, bæði til matreiðslu sem og hugbúnaði sem bætir skipulag og mælir ánægju. Þannig hefur okkur tekist að standa að stöðugum umbótum og þróun skólamatarins í takt við væntingar okkar viðskiptavina. Okkar vegferð er þó þannig að þróunarvinnan, nýsköpunarstarfið og umbæturnar hætta aldrei. Við erum stöðugt að hlusta eftir ábendingum og væntingum markaðarins og aðlögum þjónustuna í takt við það. Það er gert með skráningu og vinnslu gagna sem auðvelda upplýsingagjöf og ákvarðanatöku.“

Þá hafi markvisst markaðsstarf aukið eftirspurn eftir þjónustu félagsins og aukið vitund markaðarins á félaginu og þjónustu þess.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér og blaðið hér.