Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, á von 250 milljóna dollara arðgreiðslu, um 30 milljörðum króna, frá fjarskiptafélaginu WOM í Chile. Fjármagna á arðgreiðsluna með útgáfu skuldabréfs sem unnið er að því að selja sem stendur. Erlendir fjölmiðlar greina hins vegar frá því að órói og mótmæli í Chile gæti haft áhuga á vilja fjárfesta til að lána félaginu. Byrjað hafi verið að kynna skuldabréfaútgáfuna fyrir fjárfestum í nóvember.

Markaðshlutdeildin aukist úr 3% í 18%

Í lánshæfismati Moody‘s á skuldabréfaútgáfunni, kemur fram að Novator hafi fjárfest 400 milljónum dollara í WOM frá árinu 2015, nálægt 50 milljörðum króna. Novator keypti fjarskiptafélagið Nextel í Chile árið 2015 og breytti nafni þess í WOM. Markaðshlutdeild WOM hafi á því tímabili aukist úr 3% í 18% á fjarskiptamarkaði í Chile.

WOM er í dag með um 6,5 milljónir viðskiptavina. WOM hefur velt keppinautum sínum undir uggum og hafa stefnur flogið á víxl líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um árið 2018 .

Moodys segir að tekjur WOM hafi numið 503 milljörðum Chileskra pesóa á síðasta rekstrarári sem lauk í september 2019, um 80 milljörðum króna, og rekstrarhagnaðurinn hafi numið 123 milljörðum pesóa, um 20 milljörðum króna.

Til stendur að sækja 450 milljón dollara, um 55 milljarða króna, með skuldabréfaútgáfu sem fær lánshæfis einkunnina B1 hjá Moody‘s. WOM hyggst einnig sækja sér 150 miljónir dollara, um 18 milljarða króna, sem lánveitandinn getur óskað eftir að verði endurgreitt eftir tvö til fimm ár. Með þessu móti á að nýta 350 milljónir dollara, um 42 milljarða króna til að endurfjármagna WOM og 250 milljónir dollara til að greiða Novator arð.

Sækja einnig fram í Kólumbíu

Þá greina erlendir fjölmiðlar einnig frá því að WOM hafi boðið í að byggja upp 4G fjarskiptanet í Kólumbíu.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í febrúar 2018 sagði að Björgólfur Thor að hann hefði hug á frekari fjárfestingum í Suður-Ameríku og væri með til skoðunar að fjárfesta í Kólumbíu, Argentínu og Perú. „Það liggur langljósast við að við gætum farið með sama vörumerki og viðskiptalíkan og í landinu við hliðina á. Það er ekkert þar með sagt að það gangi eftir,“ sagði Björgólfur þá um mögulega fjárfestingu í Argentínu.

Novator með 3 milljarða dollara í stýringu

Novator er einnig stór hluthafi í Play, stærsta fjarskiptafélagi Póllands. Moody‘s, bendir á að Novator sé með um 3 milljarða dollara af eignum í stýringu, um 360 milljarðar króna.