Bláa Lónið hefur hlotið alþjóðlega gæðavottun B Corp en markmið vottunarinnar er að fá fyrirtæki til að meta þau áhrif sem starfsemi þeirra hefur á umhverfi, einstaklinga og samfélög.

Í úttektarferlinu er litið til þessara áhrifa auk þess sem stjórnarhættir eru rýndir.

„Alþjóðleg vottun B Corp er staðfesting á þeim frábæra árangri sem þegar hefur náðst í sjálfbærnimálum á sama tíma og hún vísar okkur veginn í átt að enn frekari framförum. Við einsetjum okkur að nýta krafta okkar áfram til góðra verka, ekki bara á Íslandi heldur á heimsvísu,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins.

Önnur fyrirtæki sem þegar hafa hlotið þessa vottun eru Patagonia, The Guardian, Alpro og 66°Norður.

„Það er mér sönn ánægja að bjóða Bláa Lónið velkomið í samfélag B Corp vottaðra fyrirtækja. Sú hugmyndafræði sem einkennir starfsemi Bláa Lónsins mun auðga það starf sem við vinnum til að ná markmiðum okkar um réttlátt og gagnsætt hagkerfi í þágu umhverfis og samfélaga um allan heim,“ segir Nille Skalts, stofnandi og framkvæmdastjóri B Corp á Norðurlöndunum.