BlackRock, stærsta eignastýringafyrirtæki heims, hefur náð samkomulagi um 12 milljarða dala kaup á HPS Investment Partners sem starfar á sviði sérhæfðra útlána (e. private credit). Kaupverðið verður alfarið greitt með hlutabréfum í BlackRock.
Með kaupunum er BlackRock að stækka verulega við sig á sviði sérhæfðra útlána, sem þykir einn mest spennandi markaðurinn á Wall Street að því er segir í frétt WSJ. Forstjóri BlackRock, Larry Fink, hefur lagt mikla áherslu á að auka vægi þessarar starfsemi hjá eignastýringafyrirtækinu með yfirtökum.
HPS er með tæplega 150 milljarða dala í stýringu og var því meðal fárra fyrirtækja sem er nægjanlegt stórt þessu sviði til að koma til greina fyrir BlackRock.
Þetta eru þriðja stóra yfirtaka BlackRock á undanförnum mánuðum. Í upphafi þessa árs keypti félagið Global Infrastructure Partners (GIP), sem sérhæfir sig í framtaksfjárfestingum á sviði innviði, fyrir 12,5 milljarða dala. Þá keypti BlackRock nýlega bresku gagnaveituna Preqin fyrir 3,2 milljarða dala.