Viðskiptablaðið er hugarfóstur Óla Björns Kárasonar, fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og má því segja að eitt af „börnum“ hans sé nú orðið þrítugt. Óli Björn kveðst ánægður með að blaðinu hafi tekist að festa sig í sessi sem rótgróinn fjölmiðill, sérstaklega í ljósi þess hvernig starfsumhverfi sjálfstæðum fjölmiðlum hefur verið búið af stjórnvöldum undanfarna áratugi.

Þegar Óli Björn lítur aftur um öxl til ára sinna á Viðskiptablaðinu segir hann það helst standa upp úr hve heppinn hann var með samstarfsfólk.

„Þetta magnaða starfsfólk byggði upp grunninn sem blaðið stendur á enn þann dag í dag. Það er fjarri lagi að ég hafi byggt upp Viðskiptablaðið einn, heldur kom margt gott fólk að því. Sumir stoppuðu stutt og fengu þarna tækifæri og dýrmæta reynslu sem nýttist til góðs í öðrum störfum. Á blaðinu mynduðust náin vinasambönd og sumum af mínum bestu vinum kynntist ég á Viðskiptablaðinu,“ segir hann og bætir við:

„Það er mjög mikilvægt að það sé til fjölmiðill eins og Viðskiptablaðið sem hefur burði til þess að koma fram með málefnalega og harða gagnrýni. Það koma fram sjónarmið frá blaðinu sem annars kæmu hvergi annars staðar frá. Mikilvægi Viðskiptablaðsins er jafn mikið í dag og ég taldi mér trú um að það væri í apríl árið 1994.“

Moggaegg

Fjölmiðlaferill Óla Björns hófst árið 1984, áratug áður en hann stofnaði Viðskiptablaðið, á Morgunblaðinu. „Ég er Moggaegg eins og Matthías Johannessen heitinn kallaði alltaf þá sem hafa fengið uppeldi sitt í blaðamennsku á Morgunblaðinu. Ég hafði það m.a. sem meginverkefni að skrifa leiðara, Reykjavíkurbréf og Staksteina undir styrkri stjórn Matthíasar og Styrmis Gunnarssonar. Auk þess tók ég þátt í því ásamt Birni Vigni Sigurpálssyni að gefa út viðskiptablað Morgunblaðsins. Björn Vignir ritstýrði því blaði og ég var fréttadrengurinn hans. Hann reyndist mér einkar vel og kenndi mér margt í blaðamennsku.“

Óli Björn starfaði sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu til ársins 1987 er hann hélt til Boston í Bandaríkjunum í hagfræðinám við Suffolk háskólann þar í borg. Samhliða námi starfaði hann sem fréttaritari Morgunblaðsins í Bandaríkjunum. Að námi loknu sneri hann svo aftur til Íslands og hóf störf á ný sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu. Skömmu síðar tók Óli Björn svo við stöðu framkvæmdastjóra hjá Almenna bókafélaginu sem þá átti í miklum fjárhagserfiðleikum. „Við náðum að koma í veg fyrir að félagið sigldi í þrot með umfangsmikilli eignasölu og innspýtingu eigin fjár. Að því loknu tóku nýir eigendur við keflinu og ég steig um leið frá borði.“

Við starfslokin hjá Morgunblaðinu var samið um að Óli Björn myndi snúa aftur til starfa eftir að hafa lokið við að endurskipuleggja rekstur Almenna bókafélagsins. „Það stóð alltaf til að ég yrði í tvö til þrjú ár í þessu verkefni fyrir Almenna bókafélagið. Í byrjun árs 1994 hef ég því samband við mína yfirmenn hjá Morgunblaðinu með það í huga að snúa aftur til starfa. Þá kemur aftur á móti í ljós að það henti þeim ekki að fá mig aftur til starfa fyrr en um haustið. Ég sem ungur maður gat ómögulega hugsað mér að mæla göturnar í marga mánuði.“

Blaðamannaferill Óla Björns hófst á Morgunblaðinu árið 1984. Þar starfaði hann undir styrkri stjórn Matthíasar Johannessen og Styrmis Gunnarssonar.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Bleika blaðið

Úr varð að Óli Björn fór af stað í að undirbúa stofnun nýs blaðs sem sérhæfði sig í að fjalla um viðskipti og efnahagsmál. „Mér þótti aðlaðandi að vera minn eigin herra, var orðinn sjóaður í blaðamennsku og kominn með góðar tengingar inn í íslenskt viðskiptalíf. Á þessum tíma var fjármálakerfið að slíta barnsskónum, hlutabréfamarkaðurinn var að myndast o.s.frv. Ég var með ákveðnar hugmyndir í kollinum sem mér tókst ekki að hrinda í framkvæmd á Morgunblaðinu vegna anna. Þarna sá ég tækifæri til að hrinda þeim hugmyndum í framkvæmd og lét verða af því að stofna þetta litla blað.“

Við stofnun blaðsins naut Óli Björn stuðnings félaga sinna og annarra velvildarmanna.

„Ég hafði lengi látið mig dreyma um að standa að útgáfu sérhæfðs vikublaðs um viðskipti og efnahagsmál. Þegar hugmyndin var að mótast höfðu ekki allir trú á að slíkt væri raunhæft. Sem betur fer voru þeir þó til sem vildu leggja mér lið og láta drauminn rætast. Tólf einstaklingar og fyrirtæki úr ólíkum greinum atvinnulífsins, úr iðnaði, verslun, landbúnaði, þjónustu og fjölmiðlun, tóku þátt í stofnun Viðskiptablaðsins undir hatti Útgáfufélagsins Þekkingar hf.“

Draumurinn varð svo loks að veruleika 20. apríl 1994 er fyrsta Viðskiptablaðið kom út. Þó vantaði eitt atriði upp á svo Óli Björn yrði fullkomlega sáttur. „Það var alltaf ætlunin að Viðskiptablaðið kæmi út á bleikum pappír. Það náðist ekki fyrr en nokkrum mánuðum eftir að fyrsta blaðið kom út. Með því markaði blaðið sér enn meiri sérstöðu en áður eða eins og maðurinn sagði: „Viðskiptablaðið? Já þú meinar bleika blaðið?“

Fyrsta bleika Viðskiptablaðið kom út nákvæmlega þremur mánuðum eftir útgáfu fyrsta tölublaðsins, eða þann 20. júlí 1994. Óli Björn kveðst ómögulega geta sagt til um hvort blaðið sé í mestu uppáhaldi, fyrsta Viðskiptablaðið eða fyrsta bleika Viðskiptablaðið.

Nánar er rætt við Óla Björn í nýútkomnu 30 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.