Hagnaður Brim, sem áður hét HB Grandi, nam 6,8 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi, eða sem samsvarar 936 milljónum íslenskra króna og er það mikill viðsnúningur frá 200 þúsund evra tapi á sama tíma fyrir ári. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 8,6 milljónum evra, en á sama tíma fyrir ári var um 427 þúsund evra tap á tímabilinu.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu 52,1 milljón evra á ársfjórðungnum sem er aukning um 4,5% frá sama tíma fyrir ári. Á sama tíma hefur heildarkostnaðurinn dregist saman um 16,9%, úr 50,8 milljónum evra í 42,2 milljónir evra.

Hins vegar hefur tap af fjármagnsliðum aukist mikið milli ára, úr 268 þúsund evrum í 1,7 milljón evra, á sama tíma og nærri þreföldun hefur verið á hagnaði af hlutdeildarfélögum, úr 93 þúsund evrum í 267 þúsund evrur.

Rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) jókst mikið milli ára, úr 2,8 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi ársins 2018 í 13,5 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi ársins í ár. Fór hlutfall hans af rekstrartekjum félagsins úr 5,7% í 25,9% milli ára á tímabilinu.

Eiginfjárhlutfall hækkar og hagnaðurinn þrefaldast á fyrri helming árs

Eigið fé félagsins dróst saman um 1,2% milli ára á fyrri hluta ársins, úr 279,5 milljónum evra í 276,2 milljónir evra, á sama tíma og skuldirnar drógust saman um 3,6%, úr 387,6 milljónum evra í 373,7 milljónir evra. Lækkuðu eignir félagsins því um 2,6% frá byrjun árs, meðan eiginfjárhlutfallið hækkaði um 41,9% í 42,5%.

Ef horft er til fyrri helming ársins í heild sinni nam hagnaðurinn 10,7 milljónum evra sem er ríflega þreföldun frá sama tíma fyrir ári þegar hann nam tæplega 3,1 milljón evra. Á tímabilinu jukust rekstrartekjurnar um 10,1%, úr 100 milljónum evra í 10,1 milljón evra.

Nam rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir (EBITDA), 23,2 milljónum evra, eða 21,1% af rekstrartekjum félagsins en árið áður var hann 10,6 milljónir evra og 10,6%.

Með yfir 70 þúsund tonna aflaheimildir

Í lok júní gerði samstæðan út 7 fiskiskip, en ísfiskstogarinn Engey RE-1 var seldur í byrjun júní.   Ísfiskstogarinn Helga María AK-16 hefur verið í leiguverkefni á Grænlandi, en gert er ráð fyrir henni aftur í rekstur með haustinu. Á fyrri árshelmingi ársins 2019 var afli skipa samstæðunnar 26,5 þúsund tonn af botnfiski og 43,6 þúsund tonn af uppsjávarfiski, samanlagt 70,1 þúsund tonn.

Guðmundur Kristjánsson , forstjóri Brims hf. segir afkomuna benda til þess að félagið sé á réttri leið. „Með kaupunum á Ögurvík á síðasta ári fjárfestum við í auknum veiðiheimildum sem meðal annars skila sér nú í bættri afkomu félagsins,“ segir Guðmundur.

„Brim er stórt félag með mikla fjármuni undir og áhættan talsverð vegna utanaðkomandi sveiflna. Arðsemin verður að vera góð til að borga skuldir og fjárfesta í nýjum og fullkomnum framleiðslutækjum bæði í landi og úti á sjó. Þá megum við heldur ekki gleyma því að það kostar sitt að tryggja okkur aðgang að mörkuðum sem greiða gott verð fyrir afurðir okkar. Það eru víða tækifæri til að gera betur og ég er sannfærður um að við getum nýtt okkur þau.“

Fleiri fréttir um málefni HB Granda og Brim: