Finnur Harðarson, leigutaki Stóru-Laxár, hefur heitið á handboltalandsliðið. Ef það nær í 8-liða úrslitin á HM ætlar hann að bjóða öllum landsliðsmönnunum í laxveiði.
Finnur, sem er fjárfestir og fyrrverandi útgerðarmaður í Kanada og á Grænlandi, er í forsvari fyrir félagið Bergsnös, sem tók Stóru-Laxá á leigu sumarið 2022. Félagið er kennt við einn frægasta veiðistað árinnar.
Finnur tilkynnti í Facebook í gærkvöldi að leigutakar Stóru-Laxá hefðu heitið á landsliðið.
„Hér með heitum við á drengina okkar í handbolta ef þeir ná 8-liða úrslitin á HM. Öllu landsliðinu er boðið til laxveiða í Stóru Laxá 24.-27. júní 2025," skrifar Finnur og skorar á önnur fyrirtæki að heita á landsliðið nái það í 8-liða úrslit, undanúrslit eða úrslit
Finnur tilkynnti jafnframt að yfirleiðsögumaður og staðarhaldari yrði Hrafn H. Hauksson en í leiðsögumannahópnum yrðu jafnframt Atli Már Finnsson, sem og þeir Pálmi Gunnarsson, Sigurður Sveinsson og Valdimar Grímsson. Þeir tveir síðastnefndu eru án vafa á meðal bestu handboltamanna þjóðarinnar fyrr og síðar og Pálmi er á meðal fremstu tónlistarmanna landsins.
„Býst svo við að vinur okkar Pálmi Gunnarsson taki lagið og að Esther Guðjónsdóttir formaður veiðifélagsins okkar haldi ræðu ásamt stjórn okkar," skrifar Finnur. „Þjálfurum og öðru teymi liðsins verður boðið sér veiði, enda líklega komnir með nóg af drengjunum."

Stóra-Laxá í Hreppum er af mörgum talin ein allra fallegasta laxveiðiá á Íslandi. Hún er 90 kílómetra löng dragá, sem fellur úr Grænavatni í Hvítá hjá Iðu. Veiðisvæðið teygir sig ansi langt upp í Laxárgljúfur, þar sem náttúran er mikilfengleg og hrikaleg.
Finnur og félagar hans í Bergsnös hafa byggt nýtt og glæsilegt veiðihús við ána.