Eyþór Guðjónsson eigandi Skemmtigarðsins í Grafarvogi ásamt Jakobi Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Promens og VÍS hyggjast opna baðstað, líkamsræktarstöð, veitingahús og ýmsa útivistartengda afþreyingu við strandlengju Kársness í Kópavogi.
Einkahlutafélag þeirra félaga, Nature Resort, keypti í byrjun árs lóðirnar Vesturvör 42 til 48 af bæjarfélaginu að því er Fréttablaðið greinir frá. Eyþór segir engin tengsl vera á milli verkefnisins og áætlana Skúla Mogensen forstjóra Wow air um uppbyggingu höfuðstöðva flugfélagsins og hótels á næstu lóð við hliðina.
Hyggjast velta milljörðum
„Ætlunin er að búa til heilsuparadís fyrir alla höfuðborgarbúa,“ segir Eyþór en upphaflega hafði hann verið að skoða lóð á Gufunesi fyrir verkefnið sem ekki fékkst, en hugmyndin er tíu ára gömul.
„Til lengri tíma mun verkefnið velta milljörðum en hins vegar ætlum við að taka eitt skref í einu og byggja upp af skynsemi og byrja á heilsulindinni, veitingastað, kaffihúsi, líkamsrækt og jógaaðstöðu og aðstöðu fyrir hjóla-, göngu- og aðra útivist.“