Bandaríska skyndibitakeðjan Chick-Fil-A stefnir á að opna fimm veitingastaði á Bretlandseyjum og mun sú fyrsta opna snemma árs 2025.

Staðsetningar þessara kjúklingastaða hafa ekki verið opinberaðar en staðurinn mætti mikilli andstöðu þegar hann reyndi að opna þar í landi seinast.

Fyrirtækið er enn í eigu Cathy-fjölskyldunnar, sem stofnaði veitingastaðinn árið 1946. Fjölskyldan hefur verið þekkt fyrir að nota veitingastaðinn til að opinbera afstöðu sína til kristinna gilda en Chick-Fil-A er meðal annars frægt fyrir að hafa ekki opið á sunnudögum.

Árið 2012 vakti Dan Cathy, þáverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins, mikla reiði þegar hann gagnrýndi hjónabönd samkynhneigðra. Deilur mynduðust þar sem meðlimir LGTB-samfélagsins mótmæltu veitingastaðnum en á sama tíma komu margir viðskiptavinir í Suðurríkjum Bandaríkjanna honum til stuðnings.

Aðgerðarsinnar hafa einnig mótmælt styrkjunum sem Cathy-fjölskyldan hefur veitt til kristinna samtaka eins og Fellowship of Christian Athletes, sem krefur leiðtoga til að undirrita skjal sem bannar „alls kyns samkynhneigð athæfi.“

Chick-Fil-A segist hins vegar hafa umturnað stefnu fyrirtækisins og styrkir ekki lengur samtökin. Það hafi einnig ráðið svokallaðan „Yfirmann fjölbreytileika“ og leggur nú áherslu á menntun og að berjast gegn hungri.

Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Atlanta en skyndibitakeðjan er fræg vestanhafs fyrir kjúklingasamlokur sínar. Það rekur nú meira en 2.800 veitingastaði í Bandaríkjunum, Kanada og Púertó Ríkó og stefnir á að færa út kvíarnar í Evrópu og Asíu.