Bandaríski fjölmiðillinn CNN mun í byrjun næsta mánaðar hefja að rukka ákveðna lesendur um aðgang að fréttum á vefsíðu miðilsins. Vefsíða CNN er mesti heimsótti vefmiðill Bandaríkjanna. The New York Times greinir frá.
Bandaríski fjölmiðillinn CNN mun í byrjun næsta mánaðar hefja að rukka ákveðna lesendur um aðgang að fréttum á vefsíðu miðilsins. Vefsíða CNN er mesti heimsótti vefmiðill Bandaríkjanna. The New York Times greinir frá.
Gjaldveggur (e. paywall) CNN mun í fyrstu fela í sér að lesendur geta einungis nálgast ákveðið margar fréttir gjaldfrjálst en í kjölfarið verða þeir rukkaðir um áskriftargjald, samkvæmt heimildarmönnum NYT. Fjölmiðlar á borð við NYT og The New Yorker hafa farið sömu leið á síðastliðnum árum.
Innleiðing gjaldveggjar er ein af fyrstu stóru viðskiptaákvörðunum Mark Thomson, sem tók við sem forstjóri og stjórnarformaður CNN Worldwide í október 2023. Hann hafði þar áður gegnt forstjórastöðunni hjá NYT og lagði þar mikla áherslu á áskriftarlíkan.
Thompson sagði í bréfi til starfsmanna í ár að innleiðing á ákveðinni tækni muni gera CNN kleift að bjóða upp á blaðamennsku sem lesendur munu vilja greiða fyrir.
Hundruð milljóna lesenda skoða CNN.com í hverjum mánuði. Í umfjölluninni segir að vefmiðillinn sé mögulegur bjargvættur fyrir fjölmiðlafyrirtækið sem hefur glímt við dvínandi sjónvarpsáhorf.
Lesendurnir séu hins vegar ekki endilega vanir því að þurfa að greiða fyrir fréttir og því hyggst fjölmiðillinn stíga varlega til jarðar í þessum efnum og vakta hvernig notendur bregðast við gjaldveggnum.
CNN hefur áður reynt við áskriftarkerfi með streymisþjónustunni CNN+, sem innihélt efni frá vinsælum fjölmiðlamönnum á borð við Jake Tapper, Chris Wallace og Anderson Cooper. Streymisþjónustunni var síðar lögð niður eftir að stjórnendur nýs móðurfélags CNN, Warner Bros. Discovery, ákváðu að hún væru of dýr í rekstri.