Íslenska hátæknifyrirtækið Controlant hefur lokið fjármögnun sem tryggir félaginu 40 milljónir Bandaríkjadala frá breska sjóðinum Apax Credit en það samsvarar rúmlega 5,4 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag.
Í tilkynningu segir að fjármögnunin styrki Controlant enn frekar á áframhaldandi vaxtarvegferð þess, og styðji við vöruþróun og markaðssókn með það að markmiði að umbylta aðfangakeðju lyfja á heimsvísu.
Controlant hefur vaxið hratt síðustu ár en það var í lykilhlutverki í dreifingu bóluefna í heimsfaraldrinum.
Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2022 hefur vöxtur þó verið sterkur í tekjustraumum sem ekki tengjast vöktun Covid-19 bóluefna.
Tekjur Controlant tvöfölduðust á síðasta ári og fóru frá því að nema 68 milljónum Bandaríkjadala árið 2021 í að nema 133 milljónum dala á síðasta ári, eða sem nemur rúmlega 18,2 milljörðum króna.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam 66 milljónum dala og hagnaður 5,5 milljónum dala, sem nemur rúmlega 754 milljónum króna.
Stuðningur Apax Credit mun gera okkur kleift að hraða vöruþróun til þess að styðja enn betur við viðskiptavini okkar
„Nýsköpun í lyfjageiranum og þróun nýrra lyfja fleytir fram með miklum hraða. Aðfangakeðjur þurfa að halda í við þessa þróun til þess að tryggja að lyf komist örugglega og á sjálfbæran hátt á leiðarenda til neytenda. Í samstarfi við viðskiptavini okkar vinnum við að því að umbylta og útrýma sóun í aðfangakeðju lyfja. Stuðningur Apax Credit mun gera okkur kleift að hraða vöruþróun til þess að styðja enn betur við viðskiptavini okkar og þær margþættu áskoranir sem þeir standa frammi fyrir,” segir Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn stofnenda Controlant í tilkynningunni í morgun.
Apax mun leggja til samstarfsins þekkingu á atvinnugeiranum ásamt víðtækri reynslu á rekstri
„Stefna Apax er að veita framúrskarandi fyrirtækjum sveigjanlega fjármögnun, með áherslu á fjórar atvinnugreinar: tækni, þjónustu, heilsu, og vefþjónustu- og verslun. Það er okkur ánægja að tilkynna að við höfum veitt Controlant sérsniðna fjármögnunarlausn sem mun styðja við næsta vaxtarskeið félagsins. Apax mun leggja til samstarfsins þekkingu á atvinnugeiranum ásamt víðtækri reynslu á rekstri til þess að styrkja Controlant og áframhaldandi þróun félagsins á hátækni rauntímavöktunarlausnum fyrir aðfangakeðju lyfja,“ segir Albert Costa Centena, stjórnandi, Apax Credit.