Íslenska há­tækni­fyrir­tækið Controlant hefur lokið fjár­mögnun sem tryggir fé­laginu 40 milljónir Banda­ríkja­dala frá breska sjóðinum Apax Credit en það sam­svarar rúm­lega 5,4 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins í dag.

Í til­kynningu segir að fjár­mögnunin styrki Controlant enn frekar á á­fram­haldandi vaxtar­veg­ferð þess, og styðji við vöru­þróun og markaðs­sókn með það að mark­miði að um­bylta að­fanga­keðju lyfja á heims­vísu.

Controlant hefur vaxið hratt síðustu ár en það var í lykil­hlut­verki í dreifingu bólu­efna í heims­far­aldrinum.

Sam­kvæmt árs­reikningi fé­lagsins fyrir árið 2022 hefur vöxtur þó verið sterkur í tekju­straumum sem ekki tengjast vöktun Co­vid-19 bólu­efna.

Tekjur Controlant tvö­földuðust á síðasta ári og fóru frá því að nema 68 milljónum Banda­ríkja­dala árið 2021 í að nema 133 milljónum dala á síðasta ári, eða sem nemur rúm­lega 18,2 milljörðum króna.

Rekstrar­hagnaður fyrir af­skriftir nam 66 milljónum dala og hagnaður 5,5 milljónum dala, sem nemur rúm­lega 754 milljónum króna.

Stuðningur Apax Credit mun gera okkur kleift að hraða vöru­þróun til þess að styðja enn betur við við­skipta­vini okkar

„Ný­sköpun í lyfja­geiranum og þróun nýrra lyfja fleytir fram með miklum hraða. Að­fanga­keðjur þurfa að halda í við þessa þróun til þess að tryggja að lyf komist örugg­lega og á sjálf­bæran hátt á leiðar­enda til neyt­enda. Í sam­starfi við við­skipta­vini okkar vinnum við að því að um­bylta og út­rýma sóun í að­fanga­keðju lyfja. Stuðningur Apax Credit mun gera okkur kleift að hraða vöru­þróun til þess að styðja enn betur við við­skipta­vini okkar og þær marg­þættu á­skoranir sem þeir standa frammi fyrir,” segir Gísli Herjólfs­son, for­stjóri og einn stofn­enda Controlant í til­kynningunni í morgun.

Apax mun leggja til sam­starfsins þekkingu á at­vinnu­geiranum á­samt víð­tækri reynslu á rekstri

„Stefna Apax er að veita fram­úr­skarandi fyrir­tækjum sveigjan­lega fjár­mögnun, með á­herslu á fjórar at­vinnu­greinar: tækni, þjónustu, heilsu, og vef­þjónustu- og verslun. Það er okkur á­nægja að til­kynna að við höfum veitt Controlant sér­sniðna fjár­mögnunar­lausn sem mun styðja við næsta vaxtar­skeið fé­lagsins. Apax mun leggja til sam­starfsins þekkingu á at­vinnu­geiranum á­samt víð­tækri reynslu á rekstri til þess að styrkja Controlant og á­fram­haldandi þróun fé­lagsins á há­tækni raun­tíma­vöktunar­lausnum fyrir að­fanga­keðju lyfja,“ segir Albert Costa Centena, stjórnandi, Apax Credit.