Viðskiptaráð hefur sent Daða Má Kristóferssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, bréf þar sem ráðherra er hvattur til að lagfæra ágalla á skattalöggjöfinni, sem veldur tvísköttun fjárfestinga á milli fyrirtækja í gegnum verðbréfasjóði. Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segist bjartsýnn á að löggjöfinni verði breytt enda sé einungis um tæknilega breytingu að ræða ekki pólitíska. Þá verði áhrifin á ríkissjóð hverfandi.

Núverandi skattalöggjöf veldur því að ávinningur af fjárfestingum á milli fyrirtækja í gegnum verðbréfasjóði er tvískattlagður. Þessi tvískattlagning dregur úr samkeppnishæfni skattkerfisins, hagkvæmni miðlunar fjármangs og umfangi fjárfestinga hérlendis.

Þetta kemur fram í bréfi sem Viðskiptaráð hefur sent Daða Má Kristóferssyni, fjármála- og efnahagsráðherra. Í bréfinu, sem undirritað er af Birni Brynjólfi Björnsson, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, er ráðherra hvattur til að lagfæra þessa ágalla.

„Verðbréfasjóðir gegna lykilhlutverki þegar kemur að sérhæfingu og áhættudreifingu,“ segir Björn Brynjólfur í samtali við Viðskiptablaðið. „Skattkerfið á að styðja við notkun þeirra, ekki refsa fyrir hana. Fjárfestingar fyrirtækja í slíkum sjóðum eru hins vegar tvískattlagðar - bæði þegar hagnaður er reiknaður og innleystur.

Fyrirtæki eiga ekki að þurfa að selja sig út úr fjárfestingum til að borga skatta af hagnaði sem þau hafa ekki fengið greiddan. Það er eins og að rukka bónda fyrir egg sem hænan hefur ekki ennþá verpt.“

Í bréfinu til ráðherra segir að mikilvægt einkenni íslenska skattkerfisins sé að skattlagningu arðgreiðslna og gengishagnaðar á milli hlutafélaga sé frestað þar til ávinningurinn sé innleystur af þeim einstaklingum sem eiga félögin.

„Þessi regla skapar hvata til endurfjárfestinga innan eða á milli fyrirtækja og stuðlar þannig að hagkvæmri ráðstöfun fjármagns,“ segir í bréfinu. „Hún einfaldar einnig samruna og myndun samstæðna. Sambærilegt fyrirkomulag er við lýði á öðrum Norðurlöndum og telst það grundvallarþáttur í alþjóðlega samkeppnishæfu skattkerfi.“

Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir að fjárfestingar fyrirtækja í verðbréfasjóðum séu tvískattlagðar.
Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir að fjárfestingar fyrirtækja í verðbréfasjóðum séu tvískattlagðar.
© Karítas Sveina Guðjónsdóttir (M mynd/Karítas Sveina Guðjónsdóttir)

Tvískattlagning fjármagnstekna

Í bréfinu er bent á að vikið sé frá þessari reglu þegar hlutafélag fjárfestir í öðru hlutafélagi í gegnum kaup á hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóðs hérlendis. Í stað þess að fresta skattlagningu ávinnings þar til hann er innleystur sé hagnaður hlutafélags, sem fjárfestir með þessum hætti, skattlagður árlega, óháð því hvort hann hafi verið innleystur með sölu á hlutdeildarskírteinum.

„Þetta leiðir til þess að fjármagnstekjur eigenda hlutafélags sem fjárfestir í öðru hlutafélagi í gegnum hlutdeildarskírteini eru tvískattlagðar,“ segir í bréfinu til ráðherra. „Hlutafélagið greiðir fyrst tekjuskatt árlega af gengishagnaði hlutdeildarskírteinanna, óháð því hvort sá hagnaður hafi verið innleystur af félaginu. Eigendurnir greiða síðan einnig fjármagnstekjuskatt við innlausn gengishagnaðar eða arðgreiðslu úr hlutafélaginu.“

Selja til að borga skatt

Í bréfinu til ráðherra segir að þetta geti einnig valdið því að fyrirtæki neyðist til að selja sig út úr verðbréfasjóðum til þess eins að standa undir skattgreiðslum vegna óinnleysts hagnaðar.

„Í þeim tilfellum þurfa verðbréfasjóðirnir einnig að selja undirliggjandi verðbréf og þannig geta fjárfestingarnar raskast. Almennt er óheppilegt að skattleggja fjárfestingar áður en ávinningur þeirra er innleystur vegna slíkra þvingaðra áhrifa.“

Bent er á það í bréfinu að ólík meðhöndlun hlutdeildarskírteina og hlutabréfa sé einungis í gildi gagnvart fyrirtækjum.

„Einstaklingar sem fjárfesta eru skattlagðir með sama hætti hvort sem um ræðir hlutabréf eða hlutdeildarskírteini. Í báðum tilfellum greiðir einstaklingur fjármagnstekjuskatt þegar ávinningur er innleystur, en ekki vegna árlegra virðisbreytinga. Og í báðum tilfellum er ávinningurinn skattlagður einu sinni.“

Dregur úr virkni fjármálakerfisins

Samkvæmt bréfi Viðskiptaráðs dregur ójafnræði í skattlagningu fjárfestinga fyrirtækja úr virkni fjármálakerfisins.

„Þar sem fjárfesting í gegnum verðbréfasjóði leiðir til tvískattlagningar minnkar hvati fyrirtækja til að nýta sér faglega sjóðastýringu og áhættudreifingu. Þetta veldur því að endurfjárfestingar verða ómarkvissari, með minni sérhæfingu og áhættudreifingu. Niðurstaðan er verri nýting fjármagns í hagkerfinu. Þar að auki er samkeppnishæfni íslenska skattkerfisins skert í samanburði við önnur lönd þar sem sambærileg fjárfesting nýtur hagstæðari meðferðar. Þetta getur haft letjandi áhrif á erlenda og innlenda fjárfestingu og dregið úr hraða fjármögnunar og nýsköpunar innan íslenskra hlutafélaga.“

Telur Viðskiptaráð að skattalegt misræmi valdi því að fjárfestingarákvarðanir fyrirtækja mótist í auknum mæli af skattalegu hagræði frekar en rekstrarlegum forsendum.

„Eitt birtingarform þessa er aukin notkun á samlagshlutafélögum í stað verðbréfasjóða. Með því leitast fyrirtæki við að ná fram sambærilegri áhættudreifingu og sjóðir bjóða – án þess að verða fyrir árlegri skattlagningu óinnleysts hagnaðar. Þessi leið er þó bæði þyngri í framkvæmd, dýrari í rekstri og flóknari í regluverki og eftirliti. Þrátt fyrir það nýtur hún vaxandi vinsælda, eingöngu vegna mismunar í skattalegri meðferð. Sú þróun sýnir bæði misræmið og sóunina sem misræmið veldur.“

Tillögur Viðskiptaráðs

  • Viðskiptaráð leggur annars vegar til að heimild hlutafélaga til að fresta skattlagningu horfi í gegnum verðbréfasjóði. Það þýðir að fyrirtæki getur frestað skattlagningu gengishagnaðar af fjárfestingu í öðru hlutafélagi óháð því hvort sú fjárfesting á sér stað beint eða í gegnum verðbréfasjóð.
  • Hins vegar leggur Viðskiptaráð til að skattlagning gengishagnaðar fyrirtækja vegna fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum sé greidd við sölu á umræddum skírteinum, líkt og raunin er í tilfelli einstaklinga. Það kemur í veg fyrir að fyrirtæki þurfi að selja sig út úr fjárfestingum í verðbréfasjóðum einungis til að eiga fyrir skattgreiðslum.
  • Viðskiptaráð telur fyrri tillöguna mikilvægari, enda geri hún síðari tillöguna óþarfa hvað varðar verðbréfasjóði sem eiga einungis hlutabréf. Ráðið telur síðari tillöguna hins vegar nauðsynlega ef koma eig í veg fyrir skattlagningu fyrir innlausn þegar fyrirtæki fjárfesti í verðbréfasjóðum með öðrum tegundum eigna, t.a.m. skuldabréfasjóðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.