Félagsbústaðir, dótturfélag Reykjavíkurborgar, högnuðust um 1.277 milljónir króna árið 2024 samanborið við 1.383 milljóna hagnað árið 2023.
Í uppgjörstilkynningu félagsins er áréttað að allur hagnaðurinn sé tilkominn vegna hækkunar á virði fasteignamats eigna félagsins. Matsbreyting fjárfestingareigna nam tæplega 2,6 milljörðum króna árið 2024 samanborið við ríflega 4,7 milljarða árið áður.
Rekstrartekjur Félagsbústaða á árinu 2024 námu um 7,1 milljarði króna sem er aukning um 9,6% milli ára en engu að síður 1,5% undir áætlun. Félagið rekur tekjuaukninguna til hækkunar leiguverðs vegna verðlagsbreytinga, aukins nýtingarhlutfalls eigna og stækkun eignasafnsins.
Heildareignir Félagsbústaða námu 162,7 milljörðum króna í árslok. Eigið fé var um 86,4 milljarðar. Eiginfjárhlutfall félagsins lækkaði úr 53,7% í 53,1% milli ára.
Áfram unnið að endurmati á viðskiptalíkani
Í skýrslu stjórnar segir að fjárhagsáætlun ársins 2024 hafi gert ráð fyrir 6,5% hækkun leiguverðs umfram verðlag en sú hækkun kom ekki til framkvæmda.
„Til þess að mæta því var dregið umtalsvert úr kostnaði við viðhald meðal annars með því að draga úr milliflutningum sem kalla bæði á aukin útgjöld og lakari nýtingu eigna. Þá var hægt á kaupum á nýjum íbúðum. Áfram var unnið að því að endurmeta viðskiptalíkan félagsins og fjárfestingagetu.“
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa Félagsbústaðir kallað eftir heimild til að hækka leiguverð um 6,5% umfram verðlag í talsverðan tíma. Borgin hefur ekki tekið þá beiðni formlega fyrir en í lok janúar samþykkti borgarráð að fara með tillögu um 1,5% hækkun leiguverðs fyrir borgarstjórn.
Félagsbústaðir, dótturfélag Reykjavíkurborgar, leigja út ríflega 3.100 íbúðir en það telst vera ríflega 5% af heildarfjölda íbúða í Reykjavík.