Hugbúnaðarfyrirtækið Dropbox hefur tilkynnt að það muni segja upp fimmtungi af starfsfólki sínu á heimsvísu í von um að gera fyrirtækið skilvirkara.
Í bréfi sem forstjóri Dropbox, Drew Houston, sendi til fyrirtækisins í dag segir hann einnig reksturinn óhagstæðan.
WSJ greinir frá þessu en samkvæmt gögnum verðbréfaeftirlitsins er gert ráð fyrir að uppsagnirnar muni bera í för með sér 63-68 milljóna dala útgreiðslur í formi starfslokasamninga og annars tengds kostnaðar.
„Við höldum áfram að sjá minnkandi eftirspurn og mótvind í starfsemi okkar. Þeir ytri þættir eru þó aðeins hluti af sögunni. Við höfum heyrt frá mörgum innan fyrirtækisins að skipulag okkar sé orðið of flókið og að of margir stjórnendur séu að hægja á okkur,“ segir Drew.
Dropbox gerir ráð fyrir að meirihluti þeirra greiðslna sem tengjast uppsögnunum verði greiddur á fjórða ársfjórðungnum og restin verði svo greidd út á fyrri hluta næsta árs.