Á undanförnum árum hafa ASÍ, BSRB og VR komið á fót óhagnaðardrifnu leigufélögunum Bjargi og Blævi fyrir tekjulága einstaklinga. Í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er miðað við að 25% nýrra íbúða séu á vegum óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga en hlutfallið var hækkað úr 20% fyrir ári.
Vignir Steinþór Halldórsson, annar eigenda byggingarfyrirtækisins Öxar, setur spurningamerki við þessa þróun í nýlegum hlaðvarpsþætti Chess after Dark og spyr hvort það væri ekki nær að verja fjármunum sem fara í þessi verkefni í aðgerðir til að hjálpa fólki að eignast eigin íbúð.
Hann veltir einnig fyrir sér hvort tekju- og eignaviðmið hjá Bjargi og Blævi dragi úr hvata umrædds tekjuhóps til að bæta kjör sín. Í tilviki Bjargs eru efri tekjumörk fyrir einstaklinga um 580 þúsund krónur á mánuði og um 812 þúsund krónur fyrir hjón eða sambúðarfólk. Heildareign heimilis má ekki vera yfir 7,5 milljónum.
„Það er enginn hvati. Ef þú færð of háar tekjur þá ertu rekinn út eftir þrjú ár af því að þú ert ekki nógu fátækur. Þá er stofnað eitthvað Blær. Ef þú ert næstum því í fátækasta hópnum þá er það leigufélagið fyrir þig,“ segir Vignir.
„Af hverju hjálpum við ekki öllum að eignast íbúð? Við hljótum að geta sett peningana sem fara í þetta í að hjálpa fólki að eignast íbúð.“
Þegar talið barst að leigumarkaðnum í heild sinni þá sagðist Vignir telja að Íslendingar séu almennt einkaeignarstefnufólk. Þótt margir hafi reynt að sannfæra sig um ágæti leigufélaga á borð við Heimstaden og Ölmu, m.a. þar sem auðveldara sé að taka ákvörðun um að minnka eða stækka við sig, þá á Vignir ekki von á að slík félög muni hafa veruleg áhrif á íslenska íbúðamarkaðinn á næstu árum.
„Það er svo ríkt í okkur að við viljum eignast íbúð, við viljum stækka við okkur og við viljum helst komast í sérbýli. Ég held að það séu sirka allir þannig enn þá. Kannski munu barnabörnin eða yngri börnin mín ekki nenna að slá blettinn, það má vel vera. En þannig er staðan í dag og hún hefur verið þannig.
Hvað gerist núna í þessari bylgju? Það hoppuðu allir í sérbýlið. Það hækkaði miklu meira í verði af því að allir gátu látið þann draum rætast. Það þarf að framleiða það líka,“ segir Vignir og bendir á að það sé „grátlega lítið“ af sérbýlum í byggingu í dag.
Telur hlutdeildarlán fína fjárfestingu fyrir ríkið
Vignir kveðst hrifinn af hlutdeildarlánum, úrræði ríkisins til að hjálpa ungu fólki að eignast sína fyrstu íbúð sem samþykkt var á þingi haustið 2020. Honum finnst þó full mikið af kvöðum fylgja þessu úrræði, svo sem að húsnæðið skuli veri nýtt og viðmið um hámarksverð.
Hlutdeildarlánin ná til fyrstu kaupenda og fólks sem hefur ekki átt fasteign í fimm ár. Lántakendur, sem eru undir ákveðnum tekjumörkum, þurfa að leggja út minnst 5% eigið fé á móti 75% fasteignaláni frá fjármálastofnun sem raðast á fyrsta veðrétt íbúðarinnar. Ríkið lánar síðan það sem upp á vantar.
Vignir segir að hugmyndin sé ekki ný af nálinni. Hann líkir þessu við foreldra sem ákveði að aðstoða börnin sínum að flytja að heiman.
„Þú sérð kannski ekki fram á að geta hjálpað öllum [börnunum], þá kaupir þú bara 20% sem er útborgunin í íbúð barnsins þíns [...] Svo kemur svona ofuruppgrip eins og núna og barnið þitt stækkar við sig, þá borgar það bara foreldrum sínum út og þau geta hjálpað því næsta eða eftir atvikum þarf það kannski ekki.“
Þetta var sama hugmynd hjá ríkinu, ríkið er bara hluthafi í íbúðinni þinni. Bara fjárfesting fyrir ríkið með ávöxtun og allt.“
„Mér finnst þetta vera leiðin. Við eigum að hjálpa fólki að eignast pening, ekki gera það að langtímaaumingjum.“