Kristinn ehf., fjárfestingarfélag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, hefur eignast allt hlutafé Evu consortium ehf. vegna skuldauppgjörs en fyrir átti Kristinn 30% hlut í félaginu.

Þetta kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem hefur heimilað viðskiptin.

Eva Consortium er móðurfélag heimaþjónustunnar Sinnum sem var stofnað árið 2008 og er elsta heimaþjónustufyrirtæki landsins. Félagið býður upp á fjölþætta velferðarþjónustu til einstaklinga sem þurfa á aðstoð að halda við daglegt líf vegna aldurs, fötlunar, heilsubrests eða annarra persónulegra aðstæðna.

Viðskiptavinir Sinnum eru sveitarfélög, stofnanir og einstaklingar sem kaupi þjónustu beint af fyrirtækinu, en notendur hjá Sinnum eru yfir 200 talsins. Flest sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eru reglulegir viðskiptavinir, að sögn samrunaaðila. Hjá Sinnum starfa 40 einstaklingar í 19 stöðugildum.

Sinnum velti 307 milljónum króna árið 2023 sem samsvarar 37% vexti frá árinu 2022 þegar félagið velti 224 milljónum. Félagið hagnaðist um 48 milljónir í fyrra.

Eignir Sinnum námu 89 milljónum króna og eigið fé var um 55 milljónir í árslok 2023.

Móðurfélagið Eva consortium var í lok síðasta árs í 39% eigu Gekka ehf. félags Ásdísar Höllu Bragadóttur, 31% eigu Flasarinnar ehf., félags Gunnars Viðars og Ástu Þórarinsdóttur, og 30% eigu Kristins ehf.

Eva consortium var áður rekstraraðili Hótels Íslands í Ármúla í gegnum Heilsumiðstöðina 108 Reykjavík ehf., en félagið seldi hótelreksturinn fyrir nokkrum árum.

Eignir Evu consortium voru bókfærðar á tæplega 180 milljónir króna í árslok 2023. Skuldir námu 331 milljón og eigið fé var neikvætt um 152 milljónir.