Eins og greint var frá í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins hefur rafhlaupahjóla- og hugbúnaðarfyrirtækið Hopp ehf. gengið frá 680 milljóna króna fjármögnun. Sjóðstýringarfyrirtækið Glymur, sem er í eigu Fossa fjárfestingarbanka og Guðmundar Björnssonar, og Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (Nefco) leggja Hopp til fjármagnið. Fyrir rúmu ári síðan landaði Hopp 381 milljóna króna fjármögnun frá Brunni vaxtarsjóði II og hefur félagið því alls tryggt sér nærri 1,1 milljarða króna fjármögnun á rúmu einu ári.

Að sögn Eyþórs Mána Steinarssonar, framkvæmdastjóra Hopp, hefur vöxtur Hopp nær eingöngu verið knúinn áfram af sérleyfishöfum sem hafi haft samband við Hopp af fyrra bragði með það fyrir augum að hefja að leigja út Hopp rafhlaupahjól. „Við byrjuðum ekki að herja á neina markaði fyrr en í síðasta mánuði. Fram að því höfðu sérleyfishafar í öllum tilfellum sett sig í samband við okkur. Við erum með öfluga vefsíðu og beittum leitarvélabestun, svo þegar fólk flettir upp rafhlaupahjólaleigum á Google kemur síðan okkar upp efst á leitarsíðunni. Nær allur vöxtur fyrirtækisins hefur því verið náttúrulegur en við erum einnig farin að setja aukið púður í að ná til áhugasamra aðila með ýmiss konar markaðssetningu.“

Aðalmarkmið Hopp er að sögn Eyþórs Mána að halda áfram að vaxa hratt og sýna um leið að rafhlaupahjól séu frábær og umhverfisvænn samgöngukostur í smærri byggðarlögum. „Iðnaðurinn hafði lengi vel ekki trú á því en við höfum svo gott sem þegar sannað kosti rafhlaupahjólaleiga á þessum svæðum. Við verðum vonandi komin með tvö til þrjú hundruð sérleyfi áður en langt um líður. Við einblínum að sjálfsögðu einnig á að skila góðri afkomu fyrir hluthafa okkar. Þá erum við sífellt að leita að nýjum lausnum, t.d. rafbílum og rafhjólum, til að breikka vöruframboðið okkar fyrir sérleyfishafana. Hugsunin er að prófa nýjar lausnir í Reykjavík og ef þær gefast vel bjóðum við einnig upp á þær á alþjóðavettvangi.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.