Bandaríski vogunarsjóðurinn Francisco Partners, minnihlutaeigandi í danska hugbúnaðarfyrirtækinu EG, seldi nýverið alla hluti sína í fyrirtækinu en samkvæmt Børsen er EG metið á 10 milljarða danska króna í viðskiptunum. Samsvarar það rúmlega 205 milljörðum íslenskra króna.
Klaus Holse, forstjóri EG, segir eftir söluna að nú sé markmiðið að skrá EG í dönsku Kauphöllina en ef það gengur eftir verður það stærsta frumútboð Danmerkur síðan að Ørsted, stærsta orkufyrirtæki Danmerkur, fór á markað árið 2016.
Síðan þá hefur eina stóra frumútboðið í Danmörku verið Netcompany sem fór á markað 2018 en fyrirtækið var metið á 8 milljarða danskra króna við skráningu.
Samkvæmt heimildarmönnum Børsen byrjaði EG að vinna í skráningunni árið 2021 en það er þó að minnsta kosti ár í að félagið fari á markað.
Spilar núverandi efnahagsástand verðbólgu og vaxta,átök í Úkraínu og Mið-Austurlöndum þar stóran þátt en Holse forstjóri EG hefur ekki viljað gefa upp neinn tímaramma um hvenær fyrirtækið muni ljúka skráningu.
„Að okkar mati er EG fyrirtæki sem vel í stakk búið til að vera skráð í dönsku Kauphöllina. Fyrirtækið skilar stöðugum hagnaði og er með stöðugan tekjustraum í gegnum áskriftarþjónustu traustra viðskiptavina,“ segir Holse.
EG framleiðir hugbúnað fyrir fyrirtæki og einstaklinga en 82% af tekjum fyrirtækisins kemur í gegnum áskriftarþjónustu.