Alþjóðlegir fjármálamarkaðir framlengdu tap sitt í kjölfar vaxandi áhyggna af samdrætti í bandarísku hagkerfi og yfirvofandi tollastríði.
Í nótt lækkuðu asískir hlutabréfamarkaðir lækkandi, þar á meðal í Japan, Kína og Suður-Kóreu.
Topix-vísitalan í Japan fór niður um 1,9% og Nikkei 225-vísitalan, sem samanstendur af útflutningsdrifnum félögum, tapaði 1,6%. Kospi-vísitalan í Suður-Kóreu lækkaði um 1,3% og S&P/ASX 200 í Ástralíu um 0,8%.
Bandarísku hlutabréfamarkaðirnir urðu fyrir verulegu falli í gær, þegar Nasdaq Composite lækkaði um 4%, sem er mesta daglega lækkun þessarar vísitölu í tvö og hálft ár.
S&P 500 tapaði 2,7%, sem vekur vaxandi áhyggjur af áhrifum tollastefnu Trump-stjórnarinnar á bandarískan efnahag.
Wei Li, yfirmaður margfjárfestinga hjá BNP Paribas Kína, segir í samtali við FTað „sagan um bandarísku undantekninguna sé byrjuð að breytast. Evrópa er að hækka, Bandaríkin að falla og Kína er að styrkjast.“
Þessi breyting á viðhorfum hefur haft áhrif á gengi hlutabréfa, m.a. í Hong Kong og Kína, þar sem CSI 300 vísitalan lækkaði um 0,7% og Hang Seng-vísitalan um 0,5%.
Tommie Fang, yfirmaður fjárfestinga í Kína hjá UBS, segir kínverska fjárfesta enn eiga nóg peninga til að kaupa í dýfunni en hann spáir því að markaðurinn verði afar sveiflukenndur næstu virur.
Fjárfestar leituðu í öruggar eignir í gær en mikil velta var með bandarísk ríkisskuldabréf en ávöxtunarkrafa tveggja ára bréfanna féll um 0,04% á meðan krafa tíu ára bréfanna féll um 0,08%.
Bandaríski dollarinn veiktist um 0,1% gagnvart helstu viðskiptamyntum, en jenið styrktist um 0,4% og svissneski frankinn um 0,2%.
Olíuverð hélst stöðugt við 69,28 dali tunnan eftir 1,5% lækkun á mánudag, sem bendir til þess að fjárfestar séu að leita öruggra athvarfa.
Markaðsaðilar munu fylgjast grannt með næstu skrefum bandarískra stjórnvalda og viðbrögðum Kína og Evrópu við þróuninni á mörkuðum.