Heims­markaðs­verð á olíu hélt á­fram að hækka í morgun eftir að hafa náð met­hæðum fyrir helgi.

Brent hrá­olía, sem er hráefni sem flest eldsneyti er unnið úr, hækkaði um 0,4% í fram­virkum samningum í nótt og stendur tunnan nú í 94,3 Banda­ríkja­dölum.

Á­fram­haldandi fram­leiðslu­skerðingar í Sádi-Arabíu hafa ýtt hrá­olíunni upp um 25% á þriðja árs­fjórðungi.

Hækkunin hefur leitt til hærra bensín­verð á dælunni vestan­hafs og haft nei­kvæð á­hrif á verð­bólgu­þróun.

Allar líkur eru á því að banda­ríski seðla­bankinn haldi stýri­vöxtum ó­breyttum á mið­viku­daginn en ó­vissa ríkir um næstu tvær á­kvarðanir.

Hækkanirnar munu hafa á­hrif á bæði verð­bólgu og bensín­verð á Ís­landi á komandi mánuðum en ó­mögu­legt er að á­ætla að hversu miklu magni.

„Elds­neyti kemur með ýmsum hætti inn í verð­mælingu Hag­stofunnar. Verðið á dælunni er eitt en síðan kemur þetta inn í verð á þjónustu. t. d. í formi flug­far­gjalda og síðan á endanum hefur það á­hrif á allt inn­flutnings­verð­lag því það eykur kostnað við að flytja vörur til landsins,“ sagði Jón Bjarki Bents­son aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka í sam­tali við Við­skipta­blaðið fyrir helgi.

Olíutunnan fer yfir 100 dali í haust

Sterk króna gagn­vart dal hefur veitt Ís­lendingum skjald­borg í sumar en það er að snúast við og hættir þá að halda aftur af hækkunum.

Arne Lohmann Rasmus­sen, greiningar­aðili hjá Global Risk Mana­gement í Dan­mörku, segir í sam­tali við The Wall Street Journal að verð olíu­tunnan muni fara yfir 100 dali í haust. Fjár­festar eru byrjaðir að dæla peningum í olíu­markaðinn og verður því ekkert lát á olíu­hækkunum.