Heimsmarkaðsverð á olíu hélt áfram að hækka í morgun eftir að hafa náð methæðum fyrir helgi.
Brent hráolía, sem er hráefni sem flest eldsneyti er unnið úr, hækkaði um 0,4% í framvirkum samningum í nótt og stendur tunnan nú í 94,3 Bandaríkjadölum.
Áframhaldandi framleiðsluskerðingar í Sádi-Arabíu hafa ýtt hráolíunni upp um 25% á þriðja ársfjórðungi.
Hækkunin hefur leitt til hærra bensínverð á dælunni vestanhafs og haft neikvæð áhrif á verðbólguþróun.
Allar líkur eru á því að bandaríski seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum á miðvikudaginn en óvissa ríkir um næstu tvær ákvarðanir.
Hækkanirnar munu hafa áhrif á bæði verðbólgu og bensínverð á Íslandi á komandi mánuðum en ómögulegt er að áætla að hversu miklu magni.
„Eldsneyti kemur með ýmsum hætti inn í verðmælingu Hagstofunnar. Verðið á dælunni er eitt en síðan kemur þetta inn í verð á þjónustu. t. d. í formi flugfargjalda og síðan á endanum hefur það áhrif á allt innflutningsverðlag því það eykur kostnað við að flytja vörur til landsins,“ sagði Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka í samtali við Viðskiptablaðið fyrir helgi.
Olíutunnan fer yfir 100 dali í haust
Sterk króna gagnvart dal hefur veitt Íslendingum skjaldborg í sumar en það er að snúast við og hættir þá að halda aftur af hækkunum.
Arne Lohmann Rasmussen, greiningaraðili hjá Global Risk Management í Danmörku, segir í samtali við The Wall Street Journal að verð olíutunnan muni fara yfir 100 dali í haust. Fjárfestar eru byrjaðir að dæla peningum í olíumarkaðinn og verður því ekkert lát á olíuhækkunum.