Eldflaug á vegum SpaceX sprakk skömmu eftir að henni var skotið á loft frá skotpalli í Texas í gær. Þetta er í annað sinn sem eldflaug frá fyrirtækinu springur með þessum hætti og leiddi til aflýsinga flugferða og viðvarana um fallandi eldflaugaíhluta að himni ofan.
Á síðu BBC segir að SpaceX hafi staðfest að hin ómannaða geimflaug hafi sundrast hratt eftir flugtak og misst allt samband við stjórnstöð.
Eldflaugin, SpaceX Starship, var stærsta eldflaug sem hefur nokkurn tímann verið smíðuð en hún var 123 metrar að lengd og vó um 100 þúsund kíló. Engar fregnir um skemmdir eða meiðsl hafa borist en myndir frá eyjum í Karíbahafinu sýndu sprungna íhluti rigna niður af himni.
Í yfirlýsingu frá SpaceX segir að fyrirtækið muni fara yfir gögnin til að skilja betur orsök slyssins og bendir á að sprengingin hafi átt sér stað eftir að nokkrir hreyflar höfðu gefið sig. „Eins og alltaf kemur árangur frá lærdómi og flugið í dag mun bjóða upp á viðbótarkennslu til að bæta áreiðanleika Starship.“