Í fjárhagsspá Orkuveitunnar 2025-2029, sem birt var í morgun, kemur fram að Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitunnar, hafi lækkað sína fjárfestingaspá frá fyrra ári. Unnið sé að endurfjármögnun fyrirtækisins á grunni breyttra áforma um fjárfestingar. Heimild til aukningar hlutafjár og sölu þess gildir út árið 2024.

Samhliða birtingu ársreiknings 2023 í febrúar tilkynnti Ljósleiðarinn að félagið hefði dregið úr fjárfestingum þangað til niðurstaða fengist í hlutafjáraukningu félagsins, sem hefur verið unnið að í rúm tvö ár en ekkert hefur orðið af.

„Dregið er úr fjárfestingum Ljósleiðarans, miðað við fyrri spár, en að svo stöddu er ekki gert ráð fyrir nýjum heimilistengingum í sveitarfélögum öðrum en þeim sem þegar er þjónað,“ segir í fjárhagsspánni.

Þar kemur fram að fjárfestingaáform bæði Ljósleiðarans og Carbfix hafi verið ástæða þess að Orkuveitan fékk heimild eigenda til aukningar og sölu hlutafjár félaganna á sínum tíma.

Í báðum tilvikum er reiknað með því að nýs hlutafjár sé aflað í takti við fjárfestingar félaganna. Nú hafa áætlanir Ljósleiðarans breyst og því eru áform um aukningu hlutafjár í endurskoðun. Hvað Carbfix varðar er unnið af krafti í undirbúningi Coda Terminal förgunarstöðvarinnar við Straumsvík og samhliða að eiginfjármögnun með aðkomu fjárfesta,“ segir fjárhagsspánni.

Boðuðu þátttöku Orkuveitunnar

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr á árinu að stjórn Orkuveitunnar hefði samþykkt að taka þátt í hlutafjáraukningu Ljósleiðarans ef ekki reyndist áhugi meðal fjárfesta að kaupa hlut í félaginu.

Eftir kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar í fyrra var ákveðið að auka þyrfti hlutafé Ljósleiðarans um ríflega þrjá milljarða að nafnvirði, eða sem nemur um þriðjungshlut í félaginu eftir fyrirhugaða hlutafjáraukningu, og andvirði þess á að nýta til uppbyggingar og greiða niður skuldir sem eru meðal annars tilkomnar vegna kaupanna á stofnnetinu.

„Ljósleiðarinn vinnur að því að fá nýja hluthafa inn en komi til þess að hlutafjáraukningin, sem samþykkt hefur verið, gangi ekki eftir eða dragist á langinn hefur stjórn Orkuveitu Reykjavíkur lýst því yfir að félagið muni auka hlutafé sitt í Ljósleiðaranum á markaðsvirði til að tryggja áframhaldandi rekstur og til að verja hagsmuni sína,“ sagði í skýrslu stjórnar í ársreikningi Orkuveitunnar fyrir árið 2023.

Fyrirhuguð hlutafjáraukning, með aðkomu annarra fjárfesta en OR, var fyrst samþykkt á hluthafafundi í lok október 2022 með fyrirvara um staðfestingu eigenda, einkum Reykjavíkurborgar. Ljósleiðarinn og móðurfélagið Orkuveitan vonuðust þá til að ljúka hlutafjáraukningunni fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2023.