Hafrannsóknarstofnun hefur ekki gefið út neinn upphafskvóta á loðnu á þessari vertíð og stefnir því í að engar loðnuveiðar verði heimilaðar. Verandi næst mikilvægasta útflutningsfisktegundin á eftir þorskinum munu áhrif þess verða allnokkur á landsframleiðslu og þar með á hagvöxt. Útflutningsverðmæti loðnu nam 17,8 milljörðum króna í fyrra. Á þriðja ársfjórðungi síðasta árs nam landsframleiðsla síðustu fjögurra ársfjórðunga 2.766 milljörðum króna. Er því um að ræða um 0,6% af landsframleiðslu sem þjóðarbúið verður af, að öllu öðru óbreyttu. Greint er frá þessu í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Stofninn síðast áætlaður 214 þúsund tonn

Segir hagfræðideildin að sú veiðiregla sem stuðst sé við til ákvörðunar á umfangi veiða geri ráð fyrir að veiða upp að því marki að skilin séu eftir um 400 þúsund tonn af kynþroska loðnu hverju sinni. Nýjasta mat á þeim stofni frá rannsóknarleiðangri sem farinn var 4.-15. janúar var að stofn kynþroska loðnu væri 214 þúsund tonn. Nokkur skip séu í loðnuleit um þessar mundir í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun. Þær mælingar sem gerðar hafi verið á síðustu vikum hafi ekki gefið neina von um að veiðiráðgjöf verði breytt þó ekki sé öll nótt úti enn. Hluti af óvissunni um mat á stærð stofnsins liggi í því að ganga loðnunnar hefur breyst á síðustu árum sem talið er að rekja megi m.a. til hlýnunar sjávar í kringum landið.

Loðna verið veidd samfleytt hér við land frá 1963

Verði það niðurstaðan að ekki verði veidd nein loðna muni það sæta töluverðum tíðindum enda hafi loðna verið veidd hér við land samfleytt frá árinu 1963. Þó komið hafi vertíðir með mjög litlum veiðum hafi það aldrei farið svo að ekki hafi orðið nein veiði. Af slæmum vertíðum megi helst nefna árið 2009 þegar veidd voru 15 þúsund tonn og árið 1982 þegar veiðar námu einungis rúmlega 13 þúsund tonnum. Þegar mest lét námu veiðar 1,3 milljón tonnum árið 1997 en segja megi að mestu veiðarnar hafi verið á tímabilinu 1996-2002 þegar meðalveiðar ársins námu 976 þúsund tonnum. Frá árinu 2002 hafi veiðar leitað niður á við og verið að meðaltali 190 þúsund tonn síðustu 5 ár.

Loðna lengi verið einn mikilvægasti stofninn

Að sögn hagfræðideildar hefur loðna lengi verið einn af almikilvægustu fiskistofnum Íslands þegar kemur að útflutningsverðmæti. Allt frá árinu 2012 hafi útflutningsverðmæti loðnu verið það næstmesta á eftir þorskinum, að undanskildu árinu 2014, þegar makríll var með annað mesta útflutningsverðmætið á eftir þorski. Að meðaltali hafi útflutningsverðmæti loðnu á tímabilinu 2012-2018 verið 23,2 milljarðar króna á ári sem gerir um 9,4% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða á tímabilinu.

Hafrannsóknarstofnun hefur ekki gefið út neinn upphafskvóta á loðnu á þessari vertíð og stefnir því í að engar loðnuveiðar verði heimilaðar. Verandi næst mikilvægasta útflutningsfisktegundin á eftir þorskinum munu áhrif þess verða allnokkur á landsframleiðslu og þar með á hagvöxt. Útflutningsverðmæti loðnu nam 17,8 milljörðum króna í fyrra. Á þriðja ársfjórðungi síðasta árs nam landsframleiðsla síðustu fjögurra ársfjórðunga 2.766 milljörðum króna. Er því um að ræða um 0,6% af landsframleiðslu sem þjóðarbúið verður af, að öllu öðru óbreyttu. Greint er frá þessu í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Stofninn síðast áætlaður 214 þúsund tonn

Segir hagfræðideildin að sú veiðiregla sem stuðst sé við til ákvörðunar á umfangi veiða geri ráð fyrir að veiða upp að því marki að skilin séu eftir um 400 þúsund tonn af kynþroska loðnu hverju sinni. Nýjasta mat á þeim stofni frá rannsóknarleiðangri sem farinn var 4.-15. janúar var að stofn kynþroska loðnu væri 214 þúsund tonn. Nokkur skip séu í loðnuleit um þessar mundir í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun. Þær mælingar sem gerðar hafi verið á síðustu vikum hafi ekki gefið neina von um að veiðiráðgjöf verði breytt þó ekki sé öll nótt úti enn. Hluti af óvissunni um mat á stærð stofnsins liggi í því að ganga loðnunnar hefur breyst á síðustu árum sem talið er að rekja megi m.a. til hlýnunar sjávar í kringum landið.

Loðna verið veidd samfleytt hér við land frá 1963

Verði það niðurstaðan að ekki verði veidd nein loðna muni það sæta töluverðum tíðindum enda hafi loðna verið veidd hér við land samfleytt frá árinu 1963. Þó komið hafi vertíðir með mjög litlum veiðum hafi það aldrei farið svo að ekki hafi orðið nein veiði. Af slæmum vertíðum megi helst nefna árið 2009 þegar veidd voru 15 þúsund tonn og árið 1982 þegar veiðar námu einungis rúmlega 13 þúsund tonnum. Þegar mest lét námu veiðar 1,3 milljón tonnum árið 1997 en segja megi að mestu veiðarnar hafi verið á tímabilinu 1996-2002 þegar meðalveiðar ársins námu 976 þúsund tonnum. Frá árinu 2002 hafi veiðar leitað niður á við og verið að meðaltali 190 þúsund tonn síðustu 5 ár.

Loðna lengi verið einn mikilvægasti stofninn

Að sögn hagfræðideildar hefur loðna lengi verið einn af almikilvægustu fiskistofnum Íslands þegar kemur að útflutningsverðmæti. Allt frá árinu 2012 hafi útflutningsverðmæti loðnu verið það næstmesta á eftir þorskinum, að undanskildu árinu 2014, þegar makríll var með annað mesta útflutningsverðmætið á eftir þorski. Að meðaltali hafi útflutningsverðmæti loðnu á tímabilinu 2012-2018 verið 23,2 milljarðar króna á ári sem gerir um 9,4% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða á tímabilinu.