Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins, spurði Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, hvort henni fyndist það eðlilegt að Samkeppniseftirlitið væri að krefjast upplýsinga um atkvæðagreiðslur á aðalfundum fyrirtækja.
„Áfrýjunarnefnd samkeppnismála komst að mjög afdráttarlausri niðurstöðu um það að rannsókn sem matvælaráðherra og Samkeppniseftirlitið réðust í stenst enga skoðun og væri ekki lögmæt,“ sagði Sigmundur Davíð og vísaði þar í niðurstöðu áfrýjunarnefndar um að dagsektir eftirlitsins á sjávarútvegsfyrirtæki Brim væru ólögmætar.
Nefndin sagði einnig að verktakasamningur Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra og eftirlitsins um athugun á sjávarútvegi væri ólöglegur en samningurinn gæfi ráðherra vald til að hafa áhrif á rannsóknina.
Sigmundur spurði Lilju hvað henni fyndist um niðurstöðuna og að eftirlitið ætlaði að halda áfram með athugun sína á eigin vegum.
Þótti til siðs að eyða kjörgögnum
„Einnig vil ég spyrja sérstaklega út í það atriði sem kom fram í umfjöllun um þessa ólögmætu rannsókn, það að stofnunin hafi leitast eftir því að fá upplýsingar um hvernig menn greiddu atkvæði á aðalfundi, jafnvel í leynilegri atkvæðagreiðslu. Það þótti nú til siðs hjá fyrirtækjum að fá utanaðkomandi lögmenn til að halda utan um atkvæðagreiðslur á aðalfundum og eyða síðan kjörgögnunum þannig að stjórnendur fyrirtækjanna gætu ekki fundið út hvernig hluthafar þeirra hefðu greitt atkvæði. En þarna er ríkisstofnun að fara fram á upplýsingar um hvernig menn greiddu atkvæði á fundum fyrirtækjanna. Er þetta eðlilegt að mati ráðherra?” spurði Sigmundur.
Hann vildi einnig vita hvort þingið hygðist greiða fyrir áframhaldandi rannsókn eftirlitsins á sjávarútveginum.
Lilja sagði að það væri mikilvægt að virða sjálfstæði Samkeppniseftirlitsins í hvívetna og að áfrýjunarnefndin hafi sagt að Samkeppniseftirlitið eigi ekki að beita valdheimildum sínum eins og hún gerði í þessu tilfelli.
Þyrfti að skoða málið nánar
Hún væri sammála áfrýjunarnefndinni hvað þetta varðaði en tók ekki afstöðu til þess hvort það væri eðlilegt að krefjast kjörgagna af aðalfundum. Hún sagði eftirlitinu í lófa lagt að halda rannsókn á sjávarútveginum áfram að eigin frumkvæði.
Sigmundur ítrekaði því spurningu sína og spurði Lilju að nýju hvort henni fyndist „það ásættanlegt að ríkisstofnun æski þess að fá upplýsingar um hvernig hluthafar í fyrirtækjum greiða atkvæði? Er hæstv. ráðherra sáttur við að eftirlitið gangi svo langt?“
Lilja sagði að lokum að hún væri ekki tilbúin til að svara því hvort slíkar spurningar væru eðlilegar fyrr en eftir nánari skoðun.
„Ég ætla ekki að leggja dóm á það nema ég sé búinn að skoða það mjög gaumgæfilega hvort þessar spurningar eigi rétt á sér. Hins vegar er það alveg ljóst að Samkeppniseftirlitið gat ekki beitt þeim dagsektum sem það setti á fyrirtækin og Samkeppniseftirlitið er að virða það og það hefði stjórnar Samkeppniseftirlitsins að fjalla um þessi mál með ítarlegri hætti,“ sagði Lilja að lokum.