Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, þing­maður og for­maður Mið­flokksins, spurði Lilju Dögg Al­freðs­dóttur, menningar- og við­skipta­ráð­herra, hvort henni fyndist það eðli­legt að Sam­keppnis­eftir­litið væri að krefjast upp­lýsinga um at­kvæða­greiðslur á aðal­fundum fyrir­tækja.

„Á­frýjunar­nefnd sam­keppnis­mála komst að mjög af­dráttar­lausri niður­stöðu um það að rann­sókn sem mat­væla­ráð­herra og Sam­keppnis­eftir­litið réðust í stenst enga skoðun og væri ekki lög­mæt,“ sagði Sig­mundur Davíð og vísaði þar í niður­stöðu á­frýjunar­nefndar um að dag­sektir eftir­litsins á sjávar­út­vegs­fyrir­tæki Brim væru ó­lög­mætar.

Nefndin sagði einnig að verk­taka­samningur Svan­dísar Svavars­dóttur mat­væla­ráð­herra og eftir­litsins um at­hugun á sjávar­út­vegi væri ó­lög­legur en samningurinn gæfi ráð­herra vald til að hafa á­hrif á rann­sóknina.

Sig­mundur spurði Lilju hvað henni fyndist um niður­stöðuna og að eftir­litið ætlaði að halda á­fram með at­hugun sína á eigin vegum.

Þótti til siðs að eyða kjörgögnum

„Einnig vil ég spyrja sér­stak­lega út í það at­riði sem kom fram í um­fjöllun um þessa ó­lög­mætu rann­sókn, það að stofnunin hafi leitast eftir því að fá upp­lýsingar um hvernig menn greiddu at­kvæði á aðal­fundi, jafn­vel í leyni­legri at­kvæða­greiðslu. Það þótti nú til siðs hjá fyrir­tækjum að fá utan­að­komandi lög­menn til að halda utan um at­kvæða­greiðslur á aðal­fundum og eyða síðan kjör­gögnunum þannig að stjórn­endur fyrir­tækjanna gætu ekki fundið út hvernig hlut­hafar þeirra hefðu greitt at­kvæði. En þarna er ríkis­stofnun að fara fram á upp­lýsingar um hvernig menn greiddu at­kvæði á fundum fyrir­tækjanna. Er þetta eðli­legt að mati ráð­herra?” spurði Sig­mundur.

Hann vildi einnig vita hvort þingið hygðist greiða fyrir á­fram­haldandi rann­sókn eftir­litsins á sjávar­út­veginum.

Lilja sagði að það væri mikil­vægt að virða sjálf­stæði Sam­keppnis­eftir­litsins í hví­vetna og að á­frýjunar­nefndin hafi sagt að Sam­keppnis­eftir­litið eigi ekki að beita vald­heimildum sínum eins og hún gerði í þessu til­felli.

Þyrfti að skoða málið nánar

Hún væri sam­mála á­frýjunar­nefndinni hvað þetta varðaði en tók ekki af­stöðu til þess hvort það væri eðli­legt að krefjast kjör­gagna af aðal­fundum. Hún sagði eftir­litinu í lófa lagt að halda rann­sókn á sjávar­út­veginum á­fram að eigin frum­kvæði.

Sig­mundur í­trekaði því spurningu sína og spurði Lilju að nýju hvort henni fyndist „það á­sættan­legt að ríkis­stofnun æski þess að fá upp­lýsingar um hvernig hlut­hafar í fyrir­tækjum greiða at­kvæði? Er hæstv. ráð­herra sáttur við að eftir­litið gangi svo langt?“

Lilja sagði að lokum að hún væri ekki til­búin til að svara því hvort slíkar spurningar væru eðli­legar fyrr en eftir nánari skoðun.

„Ég ætla ekki að leggja dóm á það nema ég sé búinn að skoða það mjög gaum­gæfi­lega hvort þessar spurningar eigi rétt á sér. Hins vegar er það alveg ljóst að Sam­keppnis­eftir­litið gat ekki beitt þeim dag­sektum sem það setti á fyrir­tækin og Sam­keppnis­eftir­litið er að virða það og það hefði stjórnar Sam­keppnis­eftir­litsins að fjalla um þessi mál með ítar­legri hætti,“ sagði Lilja að lokum.