Erna Gísladóttir, sem á BL ásamt eiginmanni sínum Jóni Þóri Gunnarssyni, hefur tekið aftur við forstjórastöðunni hjá bílaumboðinu. Hún lét af störfum sem forstjóri BL síðastliðin áramót eftir að hafa gegnt stöðunni í 11 ár.
Erna Gísladóttir, sem á BL ásamt eiginmanni sínum Jóni Þóri Gunnarssyni, hefur tekið aftur við forstjórastöðunni hjá bílaumboðinu. Hún lét af störfum sem forstjóri BL síðastliðin áramót eftir að hafa gegnt stöðunni í 11 ár.
„Vegna mjög krefjandi rekstrarumhverfis í bílgreininni, sem einkennist af háum stýrivöxtum og miklum samdrætti í einkaneyslu, hefur Erna Gísladóttir, eigandi fyrirtækisins ásamt eiginmanni sínum, Jóni Þóri Gunnarssyni, tekið á ný við starfi forstjóra,“ segir í fréttatilkynningu.
Brynjar Elefsen Óskarsson hefur látið af störfum sem forstjóri BL. Hann hafði starfað hjá félaginu í tíu ár áður en hann tók við sem forstjóri í byrjun árs, þar af sem framkvæmdastjóri sölusviðs merkja BL frá árinu 2019. Honum eru þökkuð góð störf í tilkynningunni.
BL er eitt stærsta bílaumboð landsins. Félagið velti 36,8 milljörðum króna árið 2023, sem er um 8,6% aukning frá árinu 2022. BL hagnaðist um 653 milljónir króna árið 2023 samanborið við 1,5 milljarða árið 2022.
Töluverður samdráttur hefur verið í sölu nýrra bíla í ár. Alls voru 8.595 fólksbílar nýskráðir á fyrstu átta mánuðum ársins, samkvæmt tölfræði Samgöngustofu. Til samanburðar voru nærri tvöfalt fleiri fólksbílar nýskráðir á sama tímabili í fyrra, eða sem nemur 14.723 bílum.
Erna hóf fyrst hjá B&L árið 1987, varð framkvæmdastjóri 1991 og forstjóri frá árinu 2003 til 2008 þegar hún og fjölskylda hennar seldi félagið. Erna og Jón Þór keyptu félagið árið 2011.