Bandaríski olíurisinn tilkynnti nú á dögunum að félagið ætli sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í olíu- og gasframleiðslu sinni á næstu árum og stefnir á kolefnishlutleysi fyrir 2050. Þetta kemur fram í frétt hjá Financial Times.
Olíu- og gasframleiðandinn hefur verið undir mikilli pressu af fjárfestum að sýna samfélagslega ábyrgð og setja upp áætlun um losun gróðurhúsalofttegunda. Skuldbindingin er stórt skref fyrir Exxon, sem áður sagðist ekki geta komið með raunhæfa áætlun um losun. Helstu samkeppnisaðilar fyrirtækisins, BP og Shell, hafa nú þegar skuldbundið sig til að minnka losun í sínum rekstri.
Darren Woods, forstjóri Exxon, segir í tilkynningu að félagið ætli sér að spila lykilhlutverk í orkuskiptum. Það muni ýta á ríkisstjórnir um allan heim að leggja aukna áherslu á loftslagsmál, til að mynda með kolefnisskatti en einnig að nýta tækni sem felst í kolefnisföngun- og geymslu.