Stórir vogunarsjóðir og sjóðstjórar hafa verið að bæta í stöðutökur sem eru líklegar til að skila ávöxtun verði Donald Trump næsti forseti Bandaríkjanna.
Þrátt fyrir að skoðanakannanir bendi til þess að staðan sé hnífjöfn milli Kamala Harris, forsetaframbjóðanda Demókrata, og Trump, segir The Wall Street Journal að fjárfestar séu að veðja á að samfélagslegur skriðþungi Trump sé að aukast.
Sem dæmi má nefna að hlutabréfaverð GEO Group, sem rekur einkarekin fangelsi í Bandaríkjunum, hefur hækkað um 21% í októbermánuði. Gengi Riot Platforms, sem sérhæfir sig í rafmyntagreftri, hefur hækkað um 34% á sama tímabili.
Daniel Loeb, forstjóri fjárfestingasjóðsins Third Point, sagði nýverið í fjárfestabréfi að hann væri búinn að bæta í valréttasamninga tengda „America First“-stefnu Trumps.
„Við erum sannfærðir um að tollarnir sem fylgja „America First“-stefnunni eigi eftir að auka innlenda framleiðslu, fjárfestingu í innviðum og hækka verð á efni og vörum,“ segir Loeb í fjárfestabréfinu.
„Við trúum því einnig að afnám íþyngjandi regluverks, sér í lagi eftir aðgerðarsinnastefnu Biden-Harris ríkisstjórnarinnar, muni leysa framleiðslu úr læðingi og auka umsvif fyrirtækja.“
Mark Dowding, fjárfestingastjóri RBC Blubay, segist einnig hafa verið að auka stöðutökur tengdum sigri Trumps en sjóðurinn er með um 130 milljarða Bandaríkjadali í stýringu.
Dowding segir í samtali við WSJ að sjóðurinn sé að veðja á að Bandaríkjadalur styrkist og að ávöxtunarferill skuldabréfa muni verða brattari, það er krafan á lengri bréf muni hækka meira en krafan á styttri bréf.
Um er að ræða stöðutökur sem benda til þess að sjóðurinn sé að veðja á að verðbólga muni aukast í forsetatíð Trumps, sér í lagi vegna fyrirhugaðra tolla en Trump hefur lagt til um 10% til 20% toll á innfluttar vörur sem og 60% toll á vörur frá Kína.